138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

niðurstaða Icesave-samninganna.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað augljóst að hæstv. félagsmálaráðherra og fyrrverandi utanríkismálaráðherra eru á algerlega öndverðum meiði i þessu máli. Fyrrverandi utanríkisráðherra segir að við höfum samið eins og hinn seki, það gangi ekki að öll ábyrgðin í þessu máli lendi á Íslendingum. Fyrrverandi utanríkisráðherra er þeirrar skoðunar að íslenska samninganefndin hafi alls ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta í þessu máli og það hversu illa gallað regluverk Evrópusambandsins er. Það er augljóst að núverandi hæstv. félagsmálaráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra eru algerlega ósammála og það er mjög merkilegt vegna þess að það var þessi utanríkisráðherra sem lagði fram beiðnina um heimild til að leiða samningana til lykta. Pólitískur ávinningur skiptir engu máli ef við njótum ekki í reynd góðs af niðurstöðu (Forseti hringir.) þess þegar skorið verður úr um lagalega ágreininginn. Mér sýnist að búið sé að búa þannig um hnútana að það sé útilokað að við Íslendingar getum nokkurn tíma fengið réttan okkar hlut í framtíðinni.