138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

endurreisn sparisjóðakerfisins.

[15:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. málshefjanda og við eigum það örugglega sameiginlegt eins og svo margt annað fyrir utan að koma úr Norðausturkjördæmi báðir, sem má ekki fara rangt með hér, að sparisjóðirnir eru mikilvægar stofnanir og njóta velvilja og stuðnings almennt, eru yfirleitt vinsælar stofnanir í byggðum sínum og hafa mjög lengi skorað hæst í bankakerfinu hvað varðar traust og tiltrú almennings. Það breytir ekki þeirri staðreynd, því miður, að sparisjóðakerfið er gríðarlega illa laskað, það sem eftir er af því. Það varð að stærstum hluta til græðgisvæðingunni að bráð, því miður, eins og svo margt annað, með alveg hryllilega sorglegum afleiðingum í ónefndum byggðum landsins. Það er kannski eitt það dapurlegasta sem maður sér, það hvað varð um góða sparisjóði sem lentu á altari gróðahugsunarinnar þegar allir ætluðu að stórgræða á því að kaupa stofnbréf eða auka hlut sinn í þeim. Þar af leiðandi hefur því miður reynst erfiðara verkefni og ekki eins einfalt og til stóð að styrkja sparisjóðakerfið með innkomu ríkisins í formi 20% stofnfjáraukningar miðað við efnahagsreikning 2007, aðallega vegna þess að ekki hefur séð til lands í að slík viðbótarinnspýting eigin fjár dygði til að þeir kæmust á réttan kjöl, fengju starfsleyfi og uppfylltu skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setur. Það stendur ekki á undirbúningsvinnu fjármálaráðuneytisins í þessum efnum. Enn ein úttektin er í gangi sem á að svara því hvort viðkomandi sparisjóðir munu, eftir úttekt óháðs aðila, fullnægja kröfum að fengnu eiginfjárframlagi ríkisins.

Niðurstaða mun liggja fyrir innan fárra daga. Í því efni, sérstaklega hvað varðar tvo þá stærstu og vegna innbyrðis tengsla meira og minna allra sparisjóðanna, verður þetta að (Forseti hringir.) vinnast sameiginlega.