138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

lög um greiðslujöfnun.

[15:26]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar unnið var að því frumvarpi sem hér um ræðir höfðum við mjög mikið samband við fjármálastofnanirnar, að sjálfsögðu, og leituðum einnig margháttaðs samráðs við ýmis hagsmunasamtök. Ég skil spurningu hv. þingmanns þannig að hún sé að vísa til þess ákvæðis sem tekið var út úr frumvarpinu fyrir samþykkt þess. Ég verð að upplýsa að það ákvæði var ekki í frumvarpinu eins og það kom úr félags- og tryggingamálaráðuneyti. Því ákvæði var bætt við í meðförum félags- og tryggingamálanefndar. Í framsöguræðu minni fyrir málinu og í greinargerð með því var rakið að tryggja þyrfti hvernig farið yrði nákvæmlega með skattskyldu þannig að hún girti ekki fyrir afskriftir í þeim tilvikum þar sem þær væru óhjákvæmilegar og þar kom fram að það væri niðurstaða fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra að ekki væri þörf lagabreytinga vegna þess. Eins og ég skil málið komu einhverjar aðrar upplýsingar fram. Við höfum svo sem heyrt þær skoðanir að það þyrfti lagabreytingar til en niðurstaða okkar varð sú að þess þyrfti ekki. En mér skilst að síðan hafi einhverjar slíkar upplýsingar komið til nefndarinnar og hún ákvað að setja inn ákvæði í frumvarpið. Það var svo það ákvæði sem tekið var út áður en frumvarpið varð að lögum.