138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

lög um greiðslujöfnun.

[15:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að við eigum ekki að vera að gera frekar einföld mál flókin eða vera að gera fólki upp einhverjar annarlegar hvatir. Það var einfaldlega mikilvægt að reyna að hraða þessu máli í gegn þannig að lögin gætu tekið gildi strax svo lækkun greiðslubyrði gæti komið til framkvæmda strax í byrjun nóvember og hún gerði það, allir þeir sem óskuðu eftir lækkun á greiðslunum þá fengu hana. Hins vegar gafst ekki tími til að breyta öllum þeim fjölmörgu kerfum sem þarf að breyta til þess að greiðslujöfnun verði meginregla hjá verðtryggðum lánum, bankarnir náðu því ekki. Alveg fram á vikuna eftir að lögin tóku gildi voru bundnar vonir við að það tækist en það tókst ekki. En það var hins vegar mikilvægt að fá þau í gildi fyrir mánaðamótin vegna þess að vextir eru greiddir eftir á. Og vegna þess að þau tóku gildi fyrir mánaðamót falla áfallnir vextir (Forseti hringir.) nóvembermánaðar undir lögin sem þeir hefðu ella ekki gert.