138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

viðskipti íslenskra stjórnvalda og AGS.

[15:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við höfum hér á þessum vettvangi velt nokkuð fyrir okkur samskiptum íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við Icesave-málið. Í nýlegu bréfi kemur fram sú afstaða af hálfu Dominique Strauss-Kahns, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að sjóðurinn hafi aldrei sett það sem skilyrði fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland að gengið yrði frá Icesave-málinu. Það stangast töluvert á við ýmislegt sem sagt hefur verið úr þessum ræðustól. Satt að segja er þetta mál þannig að það er mjög erfitt að átta sig á því hver setti hvaða skilyrði og hvenær. Í einhverjum skýringum talsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var sagt að staðið hefði á því við endurskoðunina að Norðurlöndin tryggðu fjármagn. Norðurlöndin bundu lánveitingar sínar við afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þarna er einhver hnútur á málinu. En a.m.k. er ljóst að einhver aðili hefur ekki sýnt fulla hreinskilni í málinu. Kannski er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Kannski eru það íslenskir ráðamenn. Kannski eru það talsmenn norrænu ríkisstjórnanna. Ég spyr því hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem er í hópi þeirra sem gefið hafa mjög eindregið í skyn að afgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið háð Icesave-samkomulaginu, út í þessi ummæli Dominique Strauss-Kahns, hvort hann sé sammála því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi aldrei sett það sem skilyrði að gengið yrði frá Icesave-samkomulaginu. Telur hann að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé ekki að segja satt í því bréfi sem ég vitnaði hér til?