138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur gagnrýnt að útgerðarmenn séu ekki nægilega útbærir á leigukvóta og ættu auðvitað að standa þannig að málum að það væri nægilegt framboð af leigukvóta, það var það sem hv. þingmaður gagnrýndi í blaðagrein sem ég gerði að umtalsefni á dögunum. Það sem hv. þingmaður sagði hins vegar í ræðu sinni áðan var mjög afdráttarlaust. Hún fagnaði því að með þeim breytingum sem hér er verið að boða væri verið að draga úr því sem hv. þingmaður kallaði „brask“, þ.e. framboði á leigukvóta. Þess vegna vil ég bara spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að það eigi að vera sjálfstætt markmið að draga úr leiguviðskiptum með kvóta? Eða er hv. þingmaður þeirrar skoðunar, sem mér fannst hún vera í blaðagrein sinni, að framboð af þessu taginu sé nauðsynlegt þannig að leiguviðskiptin geti átt sér stað til hagsbóta fyrir þá sem leigja?