138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við í sambandi við það þegar menn nota sömu kennitölu eru ekki neinar útfærslur á þess háttar hlutum. Þetta fjallar bara um að ein útgerð sem á kannski þrjá, fjóra báta, geymir heimildirnar og skiptir með mismunandi hætti á milli þeirra. En ég ætla að endurtaka hinar spurningarnar sem hv. þingmaður gat ekki svarað.

Það er í fyrsta lagi varðandi mat hennar á því hvað gerist ef menn með beitningarvél stokka upp línu sem í landi. Í öðru lagi, hvað finnst hv. þingmanni um að með þessum breytingum á úthlutun karfakvóta eigi að úthluta minni útgerðum togskipanna karfakvóta sem þau geta ekki veitt? Ég vil að lokum spyrja hv. þingmann varðandi skötuselinn, hvort henni hefði ekki fundist það eðlilegra að menn færu aðra leið, að þeir fengju að veiða þetta sem meðafla, að það fengi að vera einhver prósenta fyrir utan þetta í stað þess auka svo mikið beina sókn í skötusel. Hefur þessi aukning ekki (Forseti hringir.) nein umhverfisleg áhrif?