138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:58]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson ættum að taka spjall í rólegheitum þar sem við höfum tíma til að leiða til lykta þær spurningar sem hér hafa vaknað.

Þingmaðurinn spyr mig um línubátana, hvort mér finnist að þessi ívilnun eigi að ná til þeirra línubáta sem stokka uppi í landi en eru með beitningarvélar. Reyndar skildi ég nú frumvarpið þannig að þar væri átt við þetta, en ég skal ekki fullyrða um það. En ég skil frumvarpið þannig að þetta eigi við um vélræna beitingu svo fremi sem línan er stokkuð upp í landi. Línuveiðar eru að mínu viti vistvænar veiðar og þær skaða ekki sjávarbotninn, þannig að ég held að þessi veiðiaðferð sé nokkuð sem við ættum að gera hærra undir höfði en við höfum gert á undanförnum árum. Ég fagna í raun og veru öllu sem nýtist þessari veiðiaðferð. Nú er ég búin með tímann, frú forseti, ég biðst afsökunar á því að geta ekki svarað ítarlegar þeim spurningum sem þingmaðurinn bar fram en geri það kannski utan ræðustóls.