138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á stjórn fiskveiða. Mig langar þó aðeins að byrja þar sem síðasti ræðumaður hætti í sínu andsvari. Það er náttúrlega alveg ljóst að þessar tillögur um aukningu á skötuselskvótanum eru ekki í samráði við Hafrannsóknastofnun Íslands, það liggur alveg ljóst fyrir. Ég hef hins vegar sjálfur talað fyrir því að menn bæti 1.500 tonnum við skötuselinn. Ég tek undir það með hv. þingmanni, ég tel að þar sé ekkert óvarlega farið svo það komi líka skýrt fram, þannig að menn séu samkvæmir sjálfum sér.

Mig langar líka að koma aðeins inn á það sem hv. þingmaður sagði um svokallaðar vísindaveiðar. Ég veit að þær upplýsingar sem hv. þingmaður ætlar að leitast við að fá við þessar vísindaveiðar eru allar til í dag. Öll stóru sjávarútvegsfyrirtækin eru með skráð hjá sér nákvæmlega upp á dag hvar þau eru að veiðum, samsetningu aflans, aflamagn á krók og þar fram eftir götunum þannig að það er til ógrynni af upplýsingum sem væri hægt að nýta einmitt í sambandi við þetta sem hv. þingmaður benti hér á. Ef hægt væri að keyra það saman við gagnagrunninn hjá Hafrannsóknastofnun gætum við nýtt þessar upplýsingar strax. Það væri mjög æskilegt.

Ég segi fyrir mína parta að ég er svo sem ekki ósammála öllu í þessu frumvarpi sem fjallar um margt. Fyrst vil ég þó segja að ég tel mjög óskynsamlegt af hæstv. ráðherra að leggja þetta fram við ríkjandi aðstæður — nú er nefnd að fara yfir kerfið og mun hugsanlega leggja til einhverjar breytingar á því, gerir það væntanlega — akkúrat ofan í vinnu nefndarinnar þegar nefndin mun skila af sér í janúarmánuði á næsta ári. Þetta eru algjörlega óskiljanleg vinnubrögð, og líka í ljósi þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra er búinn að segja hvað eftir annað á undanförnum vikum, við alla sem ræða við hann, eða marga: Við skulum gefa nefndinni frið, verum ekkert að trufla starf nefndarinnar, verum ekkert að ræða þetta svona efnislega og svona djúpt, nefndin er að störfum. Það hefði mér þótt virðingarvert af hæstv. ráðherra, en síðan kemur hann með svona flopp, bara hendir út einhverju eins og þessu hér, eins og ég lít á það, vegna þess að, frú forseti, það er akkúrat ekkert í þessu frumvarpi sem þarf að klárast fyrir lok janúar. Þetta eru algjörlega óskiljanleg vinnubrögð og líka í ljósi þess að þurfa að eyða tímanum hér í að ræða þessa vitleysu þegar við höfum miklu meira en nóg af verkefnum til þess að vinna.

Bara til að árétta það langar mig að koma því á framfæri hér, þar sem ég sit nú í fjárlaganefnd Alþingis, að til stendur að taka Icesave-samningana út úr fjárlaganefnd í kvöld. Og hvaða tíma og hvaða tækifæri höfum við til að fara mjög efnislega yfir það? Við fengum álitin út úr efnahags- og skattanefnd í hádeginu og svo eru menn settir í þessa vinnu hér. Og það eru einungis 18 dagar eftir af starfstíma þingsins til jóla. Ég segi það, frú forseti, við hefðum átt að nota tímann miklu betur en að fara að ræða þessar breytingar. Það er alveg ljóst í mínum huga. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem hefði ekki þolað bið fram í lok janúar, akkúrat ekki neitt. Þegar maður fer að spyrja koma nefnilega engin svör.

Mig langar að velta hér upp þessu með skötuselsákvæðið í frumvarpinu þar sem hæstv. ráðherra hefur heimild til að — hann er reyndar kominn aðeins á flótta undan því — veiða allt að 2.000 tonnum, hugsanlega minna, allt í lagi með það. En hvað gerir þetta, frú forseti? Það er tekið út afmarkað svæði, svokallað svæði þar sem menn bjuggu sér til veiðilistann á sínum tíma — skötuselurinn hefur veiðst hérna síðan 1960, svo því sé líka komið á framfæri, ég gleymdi því áðan. (ÓÞ: Einn og einn.) Einn og einn, já. Það er fullt af bátum sem hafa sérhæft sig í þessum veiðum vegna útbreiðslu skötuselsins á þeim svæðum sem fengu enga úthlutun, hafa keypt sér varanlegar veiðiheimildir. Núna er þetta þannig í þessu frumvarpi að þeir hafa ákveðna úthlutun í sínum veiðiheimildum en þeir verða að veiða þær inni á þessu svokallaða frísvæði eða þar sem menn hafa möguleika að leigja frá ríkinu en þeir mega ekki gera það fyrr en þeir eru komnir niður fyrir 5 tonnin, eða niður fyrir 2 tonn eða 2,5 tonn. Hvað þýðir þetta, frú forseti? Þetta þýðir að það er verið að mismuna mönnum með stórum hætti þarna. Og hvað gerist með þessu, frú forseti? Menn munu hugsanlega, nú er ég bara að geta mér til, færa til fullt af heimildum á einhvern annan bát, til að reyna að standa þó jafnfætis þeim mönnum sem eru að fara af stað.

Svo er annað, frú forseti, sem er líka mikilvægt. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði hér áðan að auðvitað þyrftum við að ræða saman. En hefði ekki verið skynsamlegra fyrir hæstv. ráðherra að ræða einmitt við þá menn sem starfa í greininni til að koma þessum sjónarmiðum á framfæri, til að reyna að leiðrétta þessa vitleysu sem á sér hér stað? Það hefði kannski verið mun skynsamlegra heldur en að ræða þetta hér í andsvörum þar sem enginn tími er til að svara, akkúrat enginn tími. Hvað þýðir þetta, frú forseti? Þetta þýðir að menn ætla að auka beina sókn í skötuselinn. Ég er ansi hræddur um að mjög margir þingmenn hér inni geri sér ekki grein fyrir afleiðingum þess, viti ekki hvað það þýðir. Og bara til að árétta það er meðalvertíðarbátur á skötuselsveiðum með net að lengd upp á 42 km. Auðvitað er ekkert farið að hugsa um það hér hvort svo eigi að laga það og breyta, hvort eigi að setja einhverja takmörkun á netin og þar fram eftir götunum.

Svo er líka annað, frú forseti, það er algjörlega útilokað að mínu viti að skötuselsveiðar, t.d. í Breiðafirði, verði leyfðar á tímabilinu frá 15. desember til 15. maí. Það er algjörlega ófært vegna þess að það er sá tími þegar fiskurinn kemur upp á grunnslóðina til hrygningar og gengur inn í fjörðinn. Við þekkjum reynsluna af því að bátar sem voru að prófa að leggja í fyrra í Breiðafirði í apríl enduðu með fullar trossur af þorski. Nei, það er ekkert verið að spá í þetta. Ekki neitt. Akkúrat ekki neitt. Það er ekkert um það hér. Ekki neitt.

Þess vegna segi ég að rök fyrir því að þetta mál nái fram að ganga á þessum tímapunkti og geti ekki beðið eftir störfum nefndarinnar eru algjörlega út úr kú. Það er ekkert sem bendir til þess að menn þurfi að gera þetta svona.

Ef menn veiða þetta með þessum hætti eykst sóðaskapur óhjákvæmilega mjög mikið á miðunum. Ég fullyrði að það muni gerast. Ef menn fara ekki mjög „grundigt“ ofan í það að finna út á hvaða tímabilum og á hvaða svæðum menn fá að vera með þessi net mun það hafa ekki góðar afleiðingar vegna þess að þessi net eru ekki dregin nema tvisvar til þrisvar í viku. Þetta eru ekki eins og hefðbundin þorskanet sem menn vitja um á hverjum einasta degi. Það er algjörlega útilokað.

Síðan langar mig líka að koma aðeins inn á það sem er verið að gera í breytingum á karfakvótanum eins og ég var að reyna að spyrja hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur áðan. Það er 50.000 tonna karfakvóti í dag og það er áætlað að það séu 35.000 tonn af gullkarfa, 15.000 tonn af djúpkarfa. Eins og menn hafa gert þetta hafa þeir veitt bara kvótann, hvort sem þeir eru að veiða djúpkarfa eða gullkarfa. Þeir fá sína hlutdeild í karfaúthlutuninni, en við þessar breytingar hérna er verið að færa á milli. Við getum bara tekið eitt dæmi þar sem fiskvinnsla og útgerð er með þúsund tonna karfakvóta. Eftir þessar breytingar hér mun hún fá 700 tonn af gullkarfa og 300 tonn af djúpkarfa. Þau 300 tonn af djúpkarfa sem t.d. þessi útgerð fær mun hún ekki hafa neina möguleika á að veiða, ekki neina. Það er algjörlega útilokað að hún muni geta veitt karfann, þessi 300 tonn. Það er mjög sérkennilegt að menn skuli þá ekki fara þá leið vegna þess að það liggur fyrir í öllum gögnum Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar á hvaða svæðum þetta er veitt. Það liggur fyrir samkvæmt afladagbókum og öðru og það hefði alveg verið hægt að úthluta miðað við veiðireynslu viðkomandi skips mörg ár aftur í tímann.

En hvað er verið að gera þarna? Jú, það er verið að færa til heimildir á milli skipa sem er algjörlega útilokað að veiða. Það er ekki hægt að veiða þær. Það hefur enginn tök á því nema fá sér þá einhver risastór skip, eða skipta þessum stóru. Og þá sjáum við hvað muni gerast, frú forseti, stóru öflugu skipin sem hafa ljóst og leynt beitt sér fyrir þessum breytingum munu fá djúpkarfakílóin hjá minni togskipunum á niðurfelldu verði. Það gefur alveg augaleið, vegna þess að þau hafa ekki aðgang til þess að veiða. Það er mjög sérkennilegt að gera þetta svona. Það kemur nú ofan í allar ræðurnar hjá mörgum þingmönnum um að menn ætli að gera þetta þannig að menn fái aflaheimildir sem þeir geta síðan ekki nýtt. Það er akkúrat verið að gera það hér. Það er á skjön við margar ræður og rit hjá mörgum hv. þingmönnum.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á það, frú forseti, þar sem menn eru að tala hér um geymslurétt, veiðiskyldu og þar fram eftir götunum að þegar menn juku geymsluréttinn á sínum tíma var það gert með þeirri hugsun að við þann niðurskurð sem fram undan var mundu menn út frá markaðslegum forsendum fá að laga sig að því. Sú hugsun lá þar að baki, menn geta haft einhverjar útfærslur á því en hugsunin var sú. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að geymslurétturinn þurfi ekki að vera svona mikill. Hann þarf ekkert að vera 33%, enda sýnir það sig núna við síðustu kvótaáramót að menn fluttu ekkert nema upp undir 14–17% eða hvað það var, enginn upp fyrir 20% í neinni tegund sem ég man eftir í fljótu bragði í þessum hefðbundnu stóru stofnum okkar. Það mun í sjálfu sér ekki hafa nein áhrif. En hugsunin, og það er mikilvægt að við höldum því til haga í þessari umræðu, var ekki sú að menn gætu fengið eitthvað mikið af heimildum til að braska með eða eitthvað svoleiðis, þetta var bara hugsunin út frá markaðslegum forsendum til að fyrirtækin hefðu möguleika til þess að halda markaðnum og því markaðsstarfi sem þau hafa verið að vinna á undanförnum árum. Það er mjög mikilvægt.

Síðan vil ég segja, frú forseti, þar sem kemur að þessu í sambandi við veiðiskylduna að ég er mjög sáttur við það að veiðiskyldan sé aukin. Það er algjörlega útilokað að hafa þetta eins og þetta er, 50% annað hvert ár, þannig að ég er hlynntur því. Mér finnst hins vegar, eins og ég var að reyna að segja í andsvari áðan, að menn þurfi líka að líta á þetta þannig að útgerð sem er á sömu kennitölunni, sem er ekkert að flakka eða gera neitt, bara útgerð sem er með nokkur skip, fái svigrúm innan þessarar reglu hjá sér til þess að færa. Það er starfandi eitt útgerðarfyrirtæki í mínu sveitarfélagi sem gerir út þrjá smábáta og leigir til sín töluvert af heimildum til þess að láta það ganga, en er með tiltölulega lítinn hluta á skrá, t.d. einn eða tvo þeirra. Það er ekkert neitt brask eða nein svoleiðis hugsun í gangi með það, það er bara það svigrúm að menn endurskoði í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þennan hluta hér. Ég tek það fram að ég er ekkert sérstaklega á móti því að auka veiðiskylduna, enda er það jú það sem hefur legið fyrir mjög lengi og hefur verið beiðni bæði sjómannasamtakanna og útvegsmanna, þeir hafa verið einmitt lagt það til að menn ykju veiðiskylduna. Þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því að menn mega ekki tala í kross. Þegar við aukum veiðiskylduna mjög hátt minnkar framboð á leigukvóta. Þá verða menn bara að vera samkvæmir sjálfum sér og gera sér grein fyrir því. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að auka veiðiskylduna.

Þegar menn ræða um þennan skort sem hefur verið á leigukvóta og öðru á þessu ári verða hv. alþingismenn að gera sér grein fyrir því að það var skorið mjög blóðugt niður núna við síðustu úthlutun. Og bara til að rifja það upp var ýsukvótinn skertur um 32%, ufsakvótinn um 23%, grálúðan um 20% og þorskurinn um tæp 10%. Það á ekki að koma neinum á óvart að það verði minna framboð á kvóta á þessu kvótaári. Það er algjörlega með ólíkindum að menn haldi því fram að það séu einhver samantekin ráð hjá útgerðarmönnum eða þar fram eftir götunum að reyna að hefta eitthvert flæði þarna á milli. Það er ekki þannig. Menn verða að fara að horfa á staðreyndirnar eins og þær eru. Og þær eru nákvæmlega þessar við svona mikinn niðurskurð á veiðiheimildum. Það gefur alveg augaleið að þá getum við ekki notað sama fjölda báta til að veiða. Það segir sig algjörlega sjálft. Ég hefði viljað, frú forseti, að þegar sú ákvörðun var tekin um að fara í þessar stóru skerðingar hefðu menn bara tekið þessa umræðu og gert sér algjörlega grein fyrir því að það þyrfti að reikna með ákveðnu brottfalli úr greininni. Annað er ekki hægt, það er nákvæmlega sama hvort menn skera niður á þessum stöðum eða öðrum. Það sem er þó mikilvægast í þessu öllu saman, frú forseti, er eins og ég benti á í utandagskrárumræðu í síðustu viku að við förum að bæta við aflaheimildir þar sem er þó svigrúm til þess, eins og t.d. í þorski (Forseti hringir.) eða ýsu eða ufsa, til að koma þessu hér öllu af stað aftur. Þá verða þjáningarnar miklu minni fyrir alla.