138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talar um hinar svokölluðu vísindaveiðar og bendir á að nú séu allar upplýsingar til í afladagbókum skipstjóra og í gagnagrunni LÍÚ og Hafrannsóknastofnunar. Það er vissulega rétt að miklar upplýsingar og mikil gögn eru til staðar en það skortir frekari líffræðilegar upplýsingar um hitastig sjávar, um lífsskilyrði þorsksins í sjónum, um það sem Ásgeir Jakobsson heitinn kallaði m.a. beitarþol sjávarhaganna.

Ég ætla ekki að svara fyrir það hvort sjávarútvegsráðuneytið hefur haft samband við Hafrannsóknastofnun vegna aukningar aflaheimilda í skötusel. Hæstv. sjávarútvegsráðherra er staddur í þingsal og getur væntanlega svarað því betur en ég. Ég vil hins vegar taka undir orð þingmannsins, sem mér þykja umhugsunarefni, þegar hann lýsir veiðiháttseminni eða hinum mögulega skaða sem gæti orðið á miðunum vegna netaveiða á tilteknum tímum. Það er nokkuð sem er fullkomlega umræðunnar virði og mér finnst ástæða til að við ræðum það frekar í nefndinni þegar kemur að því að fjalla nánar um frumvarpið.

Ég vil ekki halda því fram úr ræðustóli að öll leiguviðskipti með kvóta séu brask og til að fyrirbyggja allan misskilning lít ég svo á að margar vel reknar og heiðarlegar útgerðir séu í landinu. Þetta braskóorð sem komið hefur á greinina stafar af háttsemi nokkurra óprúttinna aðila sem hafa kannski ekki hagað sér eins og best verður á kosið. En brask er ekkert samheiti yfir viðskipti með leigukvóta.