138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins að því sem við köllum aflaráðgjöf sjómanna. Ég lít svo á að þá séu sjómenn og hagsmunasamtök þeirra að færa þær upplýsingar og þá upplifun sem þeir hafa af miðunum inn á borð hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þá getur hann að sjálfsögðu tekið mið af því og metið þau gögn sem þar liggja að baki því að einstaklingarnir sem starfa í sjávarútvegi geta fært mikið af gögnum og mikla vinnu á borð hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það mun að sjálfsögðu gagnast honum vel.

Síðan langar mig líka, vegna þess að hv. þingmaður var að tala um að það þyrfti að hafa upplýsingar um hitastig og annað — þessar upplýsingar eru allar til. Þær eru allar til þessar upplýsingar um hvernig hitastig hefur verið að breytast og það er mjög sláandi hvernig það er. Það er ein af ástæðunum fyrir því að skötuselur hefur verið að dreifa sér fyrir norðan, það er út af hitastigi sjávar. Ýsan er komin norður fyrir land, þar sem hún hefur aldrei verið, þannig að það er margt annað sem hefur gerst í þessu.

Eins langar mig að benda hv. þingmanni á að stærsta breytingin í Barentshafinu var kannski sú að menn hættu þessum gegndarlausu veiðum á loðnu. Við erum alltaf að veiða allt æti frá fiskinum og það er það sem við verðum að skoða og fara ofan í grunninn á. Útvegsmannafélag Breiðfirðinga hefur t.d. margoft bent á þetta. Við höfum margbent á að það þurfi að stoppa gegndarlausar bræðsluveiðar á loðnu sem hafa tekið út yfir allan þjófabálk.

Í lokin langar mig að benda á að t.d. kemur það fram í gögnum Hafrannsóknastofnunar að fjögurra ára ýsa, árgangur sem er fjögurra ára gamall, er að meðaltali 865 gr í togararallinu. En ef við tökum fjögurra ára ýsu sem er veidd á miðunum þá er hún 1.235 gr. Það er 40% munur þarna þannig að það er mjög sláandi og mjög mikilvægt að menn fari vel ofan í þessa hluti.

Virðulegi forseti. Af því að ég var á þjóðfundi á laugardaginn þá ætla ég að enda þetta á jákvæðum nótum og geta þess, af því að ég kom ekki inn á ákvæði hæstv. sjávarútvegsráðherra, um að mega skylda til manneldis, að það er skref í rétta átt.