138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum mikilvægt mál, undirstöðuatvinnugrein landsins sem er íslenskur sjávarútvegur sem hefur trúlega aldrei verið okkur Íslendingum eins mikilvægur og nú. Það er því eðlilegt að við gerum ráð fyrir kvöldfundi í kvöld í ljósi þess hversu umfangsmikið þetta mál er og mikilvægt að við gefum okkur góðan tíma til að fara yfir það.

Ég sé að hæstv. ráðherra, sem ég ætlaði að spyrja nokkurra spurninga, er staddur í hliðarsal. Í ljósi þess að við höfum hafið strandveiðar, sem er áhugaverð tilraun, vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann sjái framtíðarfyrirkomulag þeirra veiða. Það vakti athygli okkar þegar við fórum um Norðausturkjördæmi í kjördæmavikunni að þegar við spurðum hvað orðið hefði um þann fisk sem var veiddur í strandveiðunum, hvort hann hafi farið til vinnslu í viðkomandi byggðarlögum, og Norðausturkjördæmi er nú mjög víðfeðmt kjördæmi eins og hv. þingmenn þekkja, þá var það sem rauður þráður í svörum þeirra sem við spurðum að fiskurinn, um þrjú þúsund tonn af þorski, fór því miður sáralítið til vinnslu í viðkomandi byggðarlögum sem er þvert á hugmyndina með byggðakvótanum. Nú er búið að skerða byggðakvótann niður um helming, (Gripið fram í: Nei.) ja, allverulega, og alveg ljóst að það hefur valdið því að fiskvinnsla hefur minnkað allverulega í mörgum af þessum byggðarlögum. Það er því mikilvægt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvaða framtíðarsýn hann hafi í þeim efnum því að markmiðið með byggðakvótanum er að efla atvinnu í landi og það er mörgum byggðarlögum mjög mikilvægt. Við horfum upp á að það er ekki búið að úthluta byggðakvóta vegna þess fiskveiðiárs sem nú er gengið í garð fyrir nokkuð löngu síðan og þess vegna er eðlilegt að við spyrjum hæstv. ráðherra hvenær við megum vænta þess að ráðuneyti hans eða Fiskistofa útdeili slíkum kvóta.

Ég vil líka taka undir það frumvarp, eins og margir aðrir þingmenn, er varðar veiðiskylduna, en með því er mælst til þess að hún sé aukin. Það hefur farið fyrir brjóstið á mörgum að horfa upp á það að handhafar kvótans skuli hafa getað leigt hann frá sér í jafnmiklum mæli og hér um ræðir vegna þess að það er sýn okkar margra og held ég flestra í samfélaginu, a.m.k. okkar framsóknarmanna, að kvótinn sé ekki eign heldur réttindi til að hafa atvinnu af því að veiða það sem úr auðlindinni kemur. Okkur greinir reyndar dálítið á eftir stjórnmálaflokkum í þeim efnum en við framsóknarmenn lítum þannig á að hér sé einungis um réttindi viðkomandi aðila að ræða og það er með öllu ólíðandi að horfa upp á að þeir geti leigt frá sér kvóta í svona miklum mæli án þess að þurfa að veiða.

Frú forseti. Í þriðja lagi vil ég nefna vinnsluskylduna. Með þessu er verið að veita ráðherra heimild, þ.e. að ráðherra verði gert heimilt með reglugerð að kveða á um vinnsluskyldu á ýmsum uppsjávartegundum. Ég vil svo sem ekki mótmæla því hér en það er mikilvægt að sú heimild verði nýtt á mjög hófsaman hátt og í samvinnu við helstu aðila í þessari útgerð sem hafa mikla þekkingu á þessum stofnum. Þar er ég náttúrlega fyrst og fremst að tala um stóru fyrirtækin á Austfjörðum sem hafa verið að skapa milljarðatugi á undangengnum árum í gjaldeyristekjur fyrir þjóðina með því að stunda veiðar á uppsjávarfiskinum. Það væri ágætt að fá það fram hjá hæstv. ráðherra hversu afdráttarlaus hann ætlar að vera þegar kemur að því að takmarka slíkar veiðar. Það verður náttúrlega að vera einhver skynsemi í þeim efnum. En eins og ég sagði áðan erum við nýbúin að fara um Norðausturkjördæmi og við funduðum með aðilum í þessum geira atvinnulífsins og ég legg mikla áherslu á að hæstv. ráðherra sýni góða samvinnu og gott samráð þegar kemur að þessum efnum.

Þótt margt sé jákvætt í þessu frumvarpi þá er margt umdeilanlegt. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir rökstuðningi fyrir að færa heimild til flutnings á aflamarki milli ára úr 33% niður í 15%. Nú geri ég ráð fyrir því að hæstv. ráðherra geri þetta af heilum hug. En við verðum að átta okkur á því hversu mikil áhrif breyting sem þessi getur haft á ýmis fyrirtæki sem eru mjög mikilvæg í samfélaginu, m.a. fyrirtæki í kjördæmi hv. þingmanns í Skagafirðinum. Ég get ekki annað en vitnað til hugleiðinga Jóns Eðvalds Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Fisk Seafood, sem birtust á heimasíðu þessa merka útgerðarfélags í morgun undir fyrirsögninni: „Hvert eru stjórnvöld að fara?“ Mig langar að vitna í fáum orðum í greinina sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu kemur fram svo dæmi sé tekið að ráðherra ætlar að skerða geymslurétt veiðiheimilda á milli ára úr 33% í 10% á þessu ári. Augljós tilgangur þessara hugmynda er að koma á móts við þá aðila sem hafa byggt á því að leigja til sín veiðiheimildir og þvinga núverandi handhafa veiðiheimilda til þess að leigja þær frá sér ef þeim tekst ekki að veiða upp sínar heimildir sjálfir. Þessi áform ganga þvert á hagsmuni þeirra 230 starfsmanna FISK sem hafa lifibrauð sitt af vinnu hjá fyrirtækinu og starfsfólks fyrirtækja sem þjónusta FISK. Ekki þjóna þessi áform heldur þeim sveitarfélögum sem FISK starfar í, því fram hefur komið hjá forsvarsmönnum þeirra að t.d. útsvarstekjur sjómanna skila sér 100% hjá fyrirtækjum eins og FISK en mun lakar hjá ýmsum öðrum aðilum svo sem strandveiðimönnum og leiguliðum í kvótakerfinu og það sama á væntanlega við um hátekjuskattinn til ríkisins.

Ég hef lagt mikla áherslu á að auka geymsluréttinn á milli ára til þess að auðvelda fyrirtækjunum að takast á við þær miklu breytingar sem verða á úthlutun veiðiheimilda á milli ára og komust í gegnum þennan mikla niðurskurð veiðiheimilda sem átt hefur sér stað síðustu ár. Á þessu fiskveiðiári, sem hófst 1. september sl. var ýsukvótinn skorinn niður um 32%, ufsinn um 23%, grálúðan um 20% og þorskurinn um rúm 6%, sem í tilfelli FISK er 2.180 tonn. Ætli bændum landsins þættu ekki lítil hyggindi í því að landbúnaðarráðherra bannaði þeim að fara með nema 10% af heyfengnum á milli ára þó svo að útlit væri fyrir slæmt heyskaparsumar? Ætla má að sá fiskur sem fyrirtækin kjósa að veiða ári seinna en ella hafi stækkað og gefi meira af sér auk þess að þjóna þeim verndunarsjónarmiðum sem uppi eru, öfugt við heyið sem rýrnar að gæðum við geymslu.“

Þetta þekkir hæstv. ráðherra sem er líka ráðherra landbúnaðarmála. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem er í raun og veru í eigu Kaupfélags Skagfirðinga sem er sameign félagsmanna í Skagafirði. Þar vinna 230 manns auk þess sem tugir annarra einstaklinga í samfélaginu hafa lífsviðurværi sitt af því að þjónusta þetta mikilvæga fyrirtæki. Hér staðhæfir forsvarsmaður þessa útgerðarfélags að með þessum breytingum verði félaginu gert erfiðara fyrir að halda uppi stöðugri atvinnu hjá fyrirtækinu sem mun að sjálfsögðu bitna harkalega á atvinnulífi í Skagafirði sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir vel til. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi áður en hann tók þessa ákvörðun kynnt sér þessi sjónarmið, þ.e. sjónarmið þeirra fyrirtækja sem veita fólki í landi, þúsundum einstaklinga atvinnu, mörg hundruð sjómönnum, hvort hann hafi kynnt sér hvaða áhrif þessi breyting hafi haft eða muni hafa á atvinnulíf í mörgum byggðarlögum vítt og breitt um landið. Þetta er sjónarmið í umræðunni sem vert er að taka tillit til og eins og ég sagði í upphafi má ekki kasta til höndunum þegar kemur að undirstöðuatvinnugrein sem sjávarútvegurinn er. Það er því mikilvægt í ljósi þess að orðræðan hjá ríkisstjórninni er um samráð og samvinnu, að heyra það frá hæstv. ráðherra hvernig hann hafi staðið að undirbúningi þessa frumvarps því að sjálfsögðu er samráð æskilegt við alla helstu hagsmunaaðila í þessari grein, hvort sem þar er um að ræða stórútgerðarfyrirtæki, smábátasjómenn, fiskverkafólk, samtök sjómanna og svo mætti áfram telja.

Mig langar að lokum, frú forseti, aðeins að ræða um þá leið sem stjórnarflokkarnir hafa talað fyrir á undangengnum vikum eða allt frá því fyrir síðustu kosningar og það er um fyrningu og fyrningarleiðina, hvernig sú vinna standi á vegum hæstv. ráðherra. Mér skilst að það séu rúmlega tuttugu manns í þeirri nefnd og því má segja að víðtækt samráð sé í þeim efnum. Hvar stendur sú vinna? Þegar við tölum um fyrningu verða menn líka að átta sig á því að margir hafa lagt út í gríðarlega fjárfestingu á undangengnum árum í þessari atvinnugrein og ég ætla að fá að vitna til sömu greinar sem framkvæmdastjóri Fisk Seafood ritaði á heimasíðuna í morgun þar sem hann tekur sem dæmi, með leyfi frú forseta:

„FISK keypti í ársbyrjun 2004 fyrirtækið Skagstrending hf. sem auglýst var til sölu. Kaupverðið að meðtöldum skuldum var á þeim tíma 4.200 milljónir, sem samsvarar 8.400 milljónum miðað við gengið í dag. Þróun helstu veiðiheimilda fyrirtækisins frá þeim tíma er eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu.“ Ég ætla ekki að lesa hana upp en á þessu tímabili hafa fiskveiðiheimildir þessa aðila, þ.e. Skagstrendings, lækkað um 33% á tímabilinu. „Í krónum talið jafngildir þessi skerðing miðað við verðlag í dag tekjumissi fyrir FISK upp á 2.800 milljónir á ári og launakostnaður vegna starfsmanna er yfir 900 milljónum krónum lægri en ella.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem er reyndar ekki í salnum í augnablikinu en ég vona að hann heyri mál mitt, hvort til standi gagnvart þessu fyrirtæki sem í þessu tilviki er búið að missa 33% af aflaheimildum sínum, en er sem betur fer ekki eins skuldsett og mörg önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, stendur til hjá hæstv. ráðherra að hefja mikla fyrningu gagnvart aðilum sem þessum og hafa þessir aðilar gerst sekir um eitthvert brask í því að byggja upp fyrirtæki sitt? Mér finnst það vera síður en svo því hér er um eitt glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins að ræða. Ég tek þetta bara sem dæmi hér vegna þess að hugleiðingar þessa ágæta framkvæmdastjóra eru frá því snemma í morgun og gefa okkur stjórnmálamönnum ákveðna innsýn í það hvernig aðilar í þessari mikilvægu atvinnugrein velta fyrir sér hver skilaboð stjórnvalda séu. Reyndar eru þau afar misvísandi, því miður. Misvísandi skilaboð gagnvart útvegi, gagnvart atvinnugrein eins og sjávarútveginum eru af hinu slæma og margir þingmenn hafa heyrt það að misvísandi skilaboð ríkisstjórnarinnar hafa haft mjög neikvæð áhrif á rekstur atvinnugreinarinnar.

Ég vil fyrir hönd okkar framsóknarmanna í þessari umræðu leggja áherslu á að við förum í þessi mál af mikilli yfirvegun, án upphrópana, förum yfir helstu staðreyndir málsins og hvaða áhrif einstakar ákvarðanir sem við ákveðum á vettvangi þingsins hafa á atvinnulífið í landinu, bankakerfið í landinu og mörg heimili í landinu, ekki síst í hinum dreifðu byggðum sem hafa undirstöðu sína af því að afla sér tekna með því að starfa við sjávarútveg. Ég hnykki á fyrirspurn minni áðan til ráðherra um samráð og samvinnu sem hann hafði gagnvart aðilum í sjávarútvegi við það að semja þetta frumvarp. Mér hefur heyrst á fréttum að það samráð hafi verið alllítið en ég veit að hæstv. ráðherra er velmeinandi maður og við hljótum að geta náð niðurstöðu á vettvangi Alþingis um að breyta þessu frumvarpi með heildarhagsmuni í huga og við eigum að sjálfsögðu að hafa þá í fyrirrúmi. Ég held að mikil vinna sé fram undan á sviði landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar við að fara yfir þetta frumvarp, kalla helstu hagsmunaaðila til að ræða þau álitamál sem ég og aðrir þingmenn höfum velt upp. Að sjálfsögðu eru breytingar á svona mikilvægum málaflokki ekki yfir gagnrýni hafnar en ég legg mikla áherslu á að ríkisstjórnin, meiri hlutinn á Alþingi sýni samráð þegar farið verður að vinna þetta í nefndum þingsins. Ég vona að sú vinna muni skila því og leiða það af sér að íslenskur sjávarútvegur muni blómgast og eflast um langa tíð.