138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð greinir töluvert á í sjávarútvegsmálum. Þær aðgerðir sem verið er að grípa til eru margar hverjar þær sem sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa sett á undanförnum árum og hafa reynst þjóðinni dýrar og óhagkvæmar og eru eftir þeim ágöllum sem eru á útfærslu fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er alveg hárrétt, okkur greinir á um það og það verður svo að vera. Sjálfstæðisflokkurinn er Sjálfstæðisflokkurinn með sín sjónarmið, sín baráttumál og hagsmunaaðila sem hann ver. En í þessari ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar er ákveðin stefna sett á önnur atriði og aðrir þættir dregnir fram. Það er alveg hárrétt. Þar er uppi ágreiningur eða mismunandi skoðanir. En öll berum við nú samt vonandi þjóðarhag fyrir brjósti.

Varðandi heimildir til að flytja á milli ára, sem hv. þingmaður kom inn á, að lækka úr 33% niður í 15% og helst niður í 10% á þessu ári, þá skiptir það máli. Ég vil ítreka að sá fiskur sem ætlast er til og veitt er ráðgjöf um að megi veiða á þessu ári komi að landi á árinu og sé til ráðstöfunar fyrir íslenskt þjóðarbú og íslenska atvinnu. Þessi heimild sem áfram mun standa upp á 15–20% held ég að þyki mörgum býsna rúm og auk þess ýtir þetta undir að sá fiskur sem ætlast er til að veiða verði annaðhvort veiddur af viðkomandi aðilum eða leigður út og aðrir veiði hann. Það er hlutverkið í sjávarútvegi, að fiskurinn komi á land sem ætlast er til að sé veiddur á ákveðnum tíma.

Varðandi ákvæðið um manneldiskröfuna þá er alveg hárrétt að viðkvæmt er að beita því, en hún er stefnumarkandi. Þegar rætt var um að setja þyrfti vinnsluskyldu á makríl á síðasta sumri var talið að ráðherra hefði ekki nægilega lagaheimild til að fylgja þeirri kvöð eftir. Engu að síður var unnið eða fór til manneldis að ég held um 30%, það er kannski betra en margir hafa viljað vera láta. (Forseti hringir.) Þetta eru stefnumarkandi atriði sem þarna eru sett, sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um. (Forseti hringir.) Við viljum vinna til manneldis þann fisk sem veiddur er við strendur landsins. Eða er ekki svo, frú forseti? (Forseti hringir.)

Ég kem að öðrum atriðum seinna í ræðu minni, frú forseti.