138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagkvæmni íslensks sjávarútvegs felst m.a. í því hvernig við höfum umgengist náttúruauðlindina. Það að við eigum hér betri fiskimið og að við veiðum hér minna en við gerðum þegar allt stefndi í óefni og ofnýtingu á stofnum er auðvitað grundvöllurinn að því. Þar höfum við forskot á aðrar þjóðir. Við eigum betri fiskimið af því að við höfum umgengist auðlindina af skynsemi og takmarkað sókn í ákveðna nytjastofna.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mörg fyrirtæki eru skuldug og eiga í erfiðleikum í íslenskum sjávarútvegi. En getur hún nefnt mér einhverja grein í íslensku atvinnulífi í dag þar sem ekki eru uppi vandamál af sambærilegum toga? (Gripið fram í.) Já, er það ekki þannig að atvinnuvegir á Íslandi eiga almennt í erfiðleikum vegna skuldsetningar? Sem betur fer eru mjög mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og það er fyrirsjáanlegt að mjög mörg þeirra munu með góðu móti geta staðið við skuldbindingar sínar. Einhver eiga þar í vandræðum, þeim þarf annaðhvort að koma til aðstoðar eða að þau munu fara sína leið í kerfinu. En það er ekkert öðruvísi í sjávarútvegi en í öðrum atvinnugreinum og hefur ekkert með þessa hagkvæmni að gera. Skuldir íslensks sjávarútvegs eru í raun mjög lítill hluti af skuldunum og hann er þó að því leyti betur settur að hann hefur tekjur sínar í erlendum gjaldmiðlum og er þar af leiðandi betur settur gagnvart lántökum í erlendri mynt.

Það er nákvæmlega þarna sem þetta liggur, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, við höfum gengið varlega um þessa auðlind okkar og við höfum náð að byggja hér upp og halda öflugum fiskstofnum og nytjastofnum og það er á því sem hagkvæmnin byggist. Með þessu kerfi hafa útgerðarfyrirtækin í landinu (Forseti hringir.) náð að aðlaga starfsemi sína, móta sér framtíðarstefnu til margra ára og þannig náð að hagræða í greininni. (Forseti hringir.) Það er það sem við búum að í dag.