138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi örfá atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á. Í ræðu minni á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna benti ég á þá staðreynd að leigumarkaðurinn og leiga á aflaheimildum til veiða hafa verið og eru hluti af því veiðimunstri sem verið hefur nú síðustu ár. Það er gríðarlega mikil óvissa fyrir þá sem eru háðir því að leigja til sín aflaheimildir og veiða. Auðvitað vita menn að í svona áhætturekstri og áhættubúskap að það er áhættan í kringum lífríkið. Þetta er engin föst tala í sjálfu sér, við erum háð lífríkinu og því fylgir óvissa. Þetta er sú staðreynd sem ég benti á og að verður því að huga hvaða afleiðingar það hefur þegar verið er að horfa á þessi mál.

Að hvetja til og setja ákvæði um aukna veiðiskyldu á aflaheimildum innan fiskveiðiársins, að lækka úr 33% af heimildum niður í 15% og jafnvel niður í 10% á þessu ári, ætti að hvetja til þess að þær aflaheimildir sem eru til ráðstöfunar innan ársins verði veiddar á árinu. Geti viðkomandi skip ekki veitt það magn er því ráðstafað á leigu til annarra þannig að það sé veitt. Hv. þingmaður talar um að hér sé verið að þrengja að en þetta ætti að mínu mati einmitt að opna möguleika fyrir leiguútgerðir hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því að verið er að kvarta yfir auknum heimildum þannig að þetta ætti að vera til bóta (Forseti hringir.) í þeim efnum.