138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem er svo mótsagnakennt m.a. í þessu frumvarpi. Hæstv. ráðherra talar mjög um að með því að draga úr geymsluréttinum muni honum takast að stuðla að því að leiguframsalið aukist og möguleikar manna, sem starfa við þær aðstæður, til að leigja sér heimildir aukist. En í 2. gr. sama frumvarps er bókstaflega kveðið á um að reyna að draga úr þessu leiguframsali og þeir sem hafa talað fyrir þessu frumvarpi hafa sérstaklega nefnt það sem sérstök rök með því að með 2. gr. sé dregið úr því sem hér var kallað í umræðunni í dag „leigubraskið“. Hæstv. ráðherra er með frumvarp sem gengur í gagnstæðar áttir í veigamiklum atriðum.

Ég spurði hæstv. ráðherra einfaldra spurninga sem hann svaraði ekki og ég vil biðja hann að gera það þá í ræðu sinni á eftir. Hann aflar sér með þessu frumvarpi mjög víðtækra, opinna heimilda, annars vegar til að fara með geymsluréttinn eins og hann lystir. Hann getur, samkvæmt orðanna hljóðan í frumvarpinu, hækkað geymsluréttinn eins mikið og hann langar til. Ef þannig stendur í bælið hjá hæstv. ráðherra fer hann bara með það upp í 100% eða niður í 0, eða hvernig sem hann vill fara með þetta mál.

Ég bað hæstv. ráðherra einnig, sem líka skiptir miklu máli fyrir efni málsins, að útskýra það fyrir okkur hvernig hann hyggist nýta sér þær heimildir sem hann hefur aflað sér með þessu frumvarpi til að setja reglur um hlutfall af uppsjávarfiski sem á að fara til manneldis. Hefur hann hugsað sér t.d. að beita þessu gagnvart loðnunni, síldinni eða kolmunnanum? Hvernig hefur hann t.d. hugsað sér að beita heimildunum varðandi makrílinn? Hann nefndi sjálfur með velþóknun að manneldishlutinn úr makrílnum væri þá 30%. Ætlar hæstv. ráðherra að gera meiri kröfur en þetta? Þetta eru einfaldar spurningar sem hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hlýtur að hafa skoðun á.