138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því frumvarpi sem hér er kynnt til sögunnar og þeim varfærnislegu skrefum sem er verið að stíga í átt til lagfæringar á lögum um stjórn fiskveiða.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á ákvæði laga sem snýr að línuívilnun, þ.e. þeirri reglu að afli sem er veiddur á línu reiknast ekki að fullu til aflamarks hlutaðeigandi báts að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá er verið að setja í lög ákvæði sem heimila ráðherra að skylda útgerðir skipa sem stunda veiðar á uppsjávarfiski til að vinna hluta aflans, sem sagt vinna aflann til meiri verðmæta heima fyrir og til útflutnings og skapa fleiri störf. Þá er jafnframt verið að setja ákvæði til bráðabirgða sem heimilar ráðherra á yfirstandandi fiskveiðiári og því næsta sérstaka ráðstöfun á allt að 2.000 lestum af skötusel. Svo fagna ég því að gert er ráð fyrir að útgerðum skipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði heimilað að sækja um að fá hluta af þeim aflaheimildum gegn greiðslu gjalds sem rennur í ríkissjóð og ég vek sérstaka athygli á því að tekjum af aflaheimildum verður ráðstafað á þann veg að 40% þeirra renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og 60% í byggðaáætlun með það að markmiði að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum. Mér þykja þetta nokkuð varfærnislegar tillögur sem hér eru kynntar til sögunnar og það er því miður til marks um hversu föst umræðan um stjórn fiskveiða er orðin í djúpum hjólförum áralangra deilna að alltaf hefst sami söngurinn þegar þessi mál eru rædd. Það er aldrei hægt að ræða um stjórn fiskveiða án þess að gripið sé til mikilla gífuryrða um þá óvissu sem það skapar fyrir byggðir landsins og þann óróa og ótta sem grípur um sig í hvert skipti sem menn ætla að gera breytingar á þessum lögum. Þannig var það í sumar að þegar kynntar voru til sögunnar reglur um strandveiðar kepptust dómsdagsspámenn stjórnarandstöðunnar við að lýsa þeim sem einhvers konar upphafi að endalokum Íslandssögunnar án þess þó að sú spá gengi eftir.

Hér hafa menn komið í ræðustól í dag og fyrir helgi og spurt um þá sátt sem skapa eigi, hvaða sátt sé verið að reyna að ná og hvaða ósætti sé með núverandi kerfi. Það liggur fyrir og hefur margsinnis komið fram í margvíslegum skoðanakönnunum hversu ósáttur meiri hluti þjóðarinnar er við lög um stjórn fiskveiða, 70–80%, ítrekað. Nú er full ástæða til að minna hv. þingmenn sem eru við þessa umræðu á að tveir stjórnmálaflokkar sem buðu fram í aðdraganda síðustu kosninga voru með það á stefnuskrá sinni að breyta þessu kerfi með svokallaðri fyrningarleið — og þeir hlutu til þess meiri hluta. Samt sem áður eru fluttar, án þess að ég ætli að fara að ræða næsta mál á dagskrá, þingsályktunartillögur sem fela í sér að menn hunsi þann vilja kjósenda, gangi beinlínis á skjön við það sem lagt var fyrir kjósendur og hunsi það sem þeir hafa sérstaklega beðið um að yrði gert.

Ég held því fram að ástæðan fyrir harðri baráttu gegn þessu fiskveiðistjórnarkerfi og hörku þeirrar umræðu sem einkennir fiskveiðimálin sé einstrengingsháttur þeirra sem varið hafa þetta kerfi í gegnum árin og áratugina. Það hefur aldrei verið tekið í mál að ræða breytingar á þessu kerfi og fyrir nokkrum mínútum var því haldið fram í þessum ræðustól að ástæðan fyrir þessari óánægju væri sú að hægt væri að framselja kvótann, það hefði skapað óánægjuna vegna þess að menn hefðu verið að selja sig út úr greininni dýrum dómum. Að vísu hefði það verið ákveðið fyrir 20 árum af ríkisstjórn Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins, rétt eins og flokkarnir sem þar á eftir komu hefðu verið gersamlega ófærir um að gera nokkrar breytingar á kerfinu fyrst þetta var svona ómögulegt að mati þess sem hér talaði. Hann er reyndar farinn úr salnum.

Til marks um hörku þessarar baráttu má nefna að nú grípur Landssamband íslenskra útvegsmanna til þess ráðs vegna þessara varfærnislegu tillagna hæstv. sjávarútvegsráðherra að mæta ekki á fundi í sérstökum hóp sem skipaður hefur verið til að vinna að breytingum á fiskveiðilöggjöfinni. Þá mæta menn ekki á fundi vegna þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra vogaði sér að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þá var búið að rjúfa einhverja sátt. Landssamband íslenskra útvegsmanna tók allra náðarsamlegast þátt í því að koma inn í þann hóp sem nú er að vinna breytingar á lögunum og þá átti ekki að hrófla við nokkrum sköpuðum hlut þangað til að niðurstaða lægi fyrir.

Hér koma menn upp og ræða mikið um umhyggju sína fyrir öllum þeim sem koma að sjávarútvegi, hvort sem það eru útvegsmenn, fiskvinnslufólk eða sjómenn. Ég held því hins vegar fram að því miður hafi hagsmunir útvegsmanna vigtað meira í þessari umræðu en hagsmunir fiskvinnslufólks og byggðanna í landinu, enda er ástæðan fyrir óánægjunni með þetta kerfi afleiðingarnar sem það hefur haft fyrir byggðirnar í landinu. Ég hef talað við sjómenn alla síðustu viku um þessar breytingar sem eru himinlifandi með þetta vegna þess að við vitum sem erum hér og allir vita það og sjá það í hendi sér að 5.000 tonn sem hægt er að fá á grundvelli þessara breytinga hér munu ekki skapa sjálfstæðan rekstrargrundvöll fyrir nokkurn útgerðarmann. Það fer enginn að kaupa sér bát til að geta veitt 5.000 tonn af skötusel. Það virkar ekki svoleiðis, það fer enginn að gera það.

Ég upplifði það sjálfur í mínum störfum sem sjómaður síðast í byrjun árs 2007 að vera á fiskveiðum á fótreipistrolli á Háadýpi fyrir suðurströnd landsins og veiða þar skötusel, og veiða nokkuð mikið af honum, og fara síðan aftur á grásleppuveiðar á Breiðafirði í sumar og sjá með eigin augum og verða þess áskynja hvernig sá stofn hefur breitt úr sér frá því að vera nánast eingöngu við suðurströndina og vera kominn núna vel vestur með landinu. Þarf ekki að bregðast við því með einum eða öðrum hætti? Hvað halda menn að hafi verið kastað miklu af skötusel í sjóinn vegna þessa? Er ekki ástæða til að bregðast við því? Er ekki ástæða til að reyna að minnka það magn af afla sem menn einfaldlega bræða? Er ekki ástæða til að reyna að framleiða meira til manneldis? Hafa menn fylgst með þeirri umræðu sem á sér stað um umgengni um auðlindir sjávar í útlöndum og hafa þeir lesið þær bækur sem núna fást í bókabúðum um hin dauðu höf hægri og vinstri? Um öll heimsins höf er verið að fjalla þar sem eiga sér stað umtalsverðar breytingar á lífríki sjávar. Hafa menn reynt að gera sér í hugarlund hvaða áhrif þessi umræða, jafnstjórnlaus og hún getur orðið, og vitna ég þá t.d. til umræðunnar um hvalveiðar, getur haft á þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar? Hún getur haft gríðarlega neikvæð áhrif. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig sú umræða þróast og ég vek athygli bæði þeirra hæstv. ráðherra og þingmanna sem tala hér á mikilvægi þess að við gætum vel að umhverfissjónarmiðum í öllum þeim breytingum sem við gerum á þessu kerfi.

Ég held líka, og vil hvetja þingmenn sem hér taka til máls, að við ættum að reyna að haga vinnu okkar þannig að til sátta horfi, að menn geti þá komist að niðurstöðu sem einhver sátt skapast um til framdráttar í íslensku samfélagi. Það er engum til góðs að ganga fram af slíkum einstrengingshætti að þeir hlusti ekki á nein rök, séu ekki reiðubúnir til að ræða neinar breytingar. Það verður til þess að hjólför deilunnar dýpka og dýpka og sífellt erfiðara verður að komast upp úr. Þess vegna held ég að þetta sé heillavænlegt spor sem hæstv. sjávarútvegsráðherra stígur af mikilli varfærni svo ekki sé fastar að orði kveðið. Við vitum það, margir sem hér erum inni, að sá sem hér stendur mundi vilja ganga mun lengra í þá átt en hér er gert. Menn ættu að reyna að mæta þessu vegna þess að hér er mikil þekking á þessum málaflokki, hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni. Menn ættu frekar að reyna að mætast í umræðunni, koma með mismunandi sjónarmið en ekki fara að ræða um eitthvað sem gerðist fyrir 20 árum í ríkisstjórn Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins, stjórnmálaflokka sem ekki eru lengur til og heyra sögunni til. Það er ekki málefnalegt og það er ekki til árangurs fallið á nokkurn hátt.

Ég hvet að endingu til þess að menn reyni eftir fremsta megni að stilla sig í umræðunni fram undan, bæði í þessu máli og svo þegar kemur að umræðunni um svokallaða fyrningu sem verður ekki undirstrikað nægilega mikið að er ekki sjálfstætt fiskveiðistjórnarkerfi í sjálfu sér, menn ætla ekki að reka sérstaka fyrningarleið sem grundvöll fiskveiðistjórnarkerfis. Menn tala um framsalið sem rót hins illa í þessum efnum en ég er ekki sammála því. Ég held að kvótakerfið eins og það er byggt upp grundvallist meira og minna á því að menn hafi möguleika á því að selja kvótann. Það sem hefur gengið fram af fólki er sú staðreynd að menn hafa selt sig út úr greininni dýrum dómum. Kannski er það nokkuð sem menn hefðu átt að huga frekar að. Getan til að hagræða í rekstri, kaupa til sín og selja frá sér, er gríðarlega mikilvægur þáttur þessa kerfis. En auðvitað hafa menn ekki verið tilbúnir til að ræða það vegna þess að þeir hafa kosið sérstaklega að túlka fyrningarleiðina sem ómögulegt fiskveiðistjórnarkerfi, galna eins og svo margt er kallað.

Auðvitað er það ekki vilji nokkurs manns að ganga þannig fram í þessum málaflokki að eftir sé sviðin jörð. Það er dálítið sérkennilegt að heyra málflutning hv. þingmanna sem annars vegar lýsa því að upp úr áramótum verði svo mikil óvissa í greininni að það horfi til þess að hér fari heilu og hálfu byggðirnar í eyði út af óvissunni sem fyrningarleiðin skapar en svo þegar fjallað er um skuldir sjávarútvegsins koma þeir upp í þennan sama ræðustól og verja það hversu glæsilegur og hagkvæmur sjávarútvegurinn sé. Þetta er einfaldlega ekki málefnalegur málflutningur og við verðum að komast upp úr þessum hrikalega djúpu og ömurlegu hjólförum. Þess vegna hvet ég að endingu menn til að fara í málefnalega umræðu um þetta frumvarp og taka síðan þátt í henni áfram í þeim hópi sem sjávarútvegsráðherra hefur skipað til að vinna í átt til sáttar í íslenskum sjávarútvegi.