138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins koma inn á nokkrar spurningar sem hv. þingmaður vék að varðandi karfann og það hvernig úthlutun aflaheimilda í honum er lögð til. Þá er það svo að skipuð var nefnd eða starfshópur sem Landssamband íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunin og ráðuneytið áttu aðild að. Mat nefndarinnar var að ekki væri hægt að hafa þessa úthlutun með öðrum hætti. Ég veit alveg um sjónarmið hv. þingmanns og þau voru einmitt uppi í sumar þegar þetta var til meðhöndlunar í þinginu, en það var mat þessara aðila að þær aflatakmarkanir sem lægju fyrir væru með þeim hætti að ekki væri hægt að byggja á þeim og yrði þá að fara út í þetta sem hér er lagt til. Það eru bara þau rök sem ég hef í þessu máli og farið er eftir þeim tillögum sem þarna er um að ræða.

Varðandi báta sem róa samkvæmt línuívilnunarreglunum og það að fá undanþágu frá því að landa í og koma inn til sömu hafnar og lagt er frá, þá lít ég svo á að þetta sé meira undanþáguákvæði, þ.e. þegar er vont í sjóinn. Fyrri lög sem lutu að þessu voru þau, held ég, að skipið yrði að koma til sömu hafnar, annars hefði það ekki þann rétt sem línuívilnunin veitti, þannig að þarna er fyrst og fremst verið að taka til öryggissjónarmiða sem ég held að allir hafi verið sammála um að leggja til en ekki að eitthvert mikið svigrúm væri skapað (Forseti hringir.) til að leggja upp frá einum stað og landa annars staðar. Grunnhugmyndin á bak við þetta er (Forseti hringir.) öryggissjónarmið fyrir viðkomandi sjómenn, frú forseti.