138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að ég held að ástæða sé til að leggja upp úr öryggi sjómanna og að ekki séu settar á þá svo strangar reglur að bátar geti ekki lagt upp í annarri höfn ef nauðsyn krefur. Ef einhver álitamál eru í þessu efni þá er sjálfsagt að kveða nánar á um þau í reglugerð.

Varðandi karfann ítreka ég það sem ég sagði áðan að mér er kunnugt um þau álitaefni sem hv. þingmaður vék að og þau voru rædd mjög ítarlega í sumar. Hliðstæð grein var í því frumvarpi sem þá var lagt fram og má segja að þeirri grein hafi verið ýtt út af borðinu og menn reynt að kanna fleiri hliðar á málinu, eins og hv. þingmaður minntist á. Eftir að það hefur verið skoðað vísa ég til tillögu þeirrar nefndar, þeirra aðila sem fóru yfir málið, en það var mat þessa hóps Hafrannsóknastofnunar, Landssambands íslenskra útvegsmanna og ráðuneytisins að þetta væri ekki hægt á annan veg. Það má vel vera og alveg sjálfsagt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari yfir þessi atriði aftur og fái inn þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir. Ég virði það á margan hátt en bendi aftur á hvað þessir fagaðilar og þeir sem þarna eiga hlut að máli, eins og Landssamband íslenskra útvegsmanna, hafa bent á að þetta verði að vera með þessum hætti. En ég tel bara sjálfsagt að nefndin fari yfir þessi atriði eins og önnur í frumvarpinu.