138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra sem ég bar upp við hann áðan og hann vék sér undan að svara, bæði í andsvari og eins núna í ræðu sinni, nema hann hafi bara gleymt því. Þess vegna vil ég ítreka hana við hann.

Fá þeir bátar sem eru með beitningarvélar um borð og breyta núna til og fara að stokka uppi í landi en hafa beitningarvélina áfram um borð svokallaða 15% ívilnun eða eru það eingöngu trektarbátar? Það er mjög mikilvægt að þetta komi fram.

Síðan langar mig að gera smáathugasemd við það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði um að það væri verið að auka línuívilnunina til að ná markmiði laganna um að nýta heimildirnar. Ég bendi hæstv. sjávarútvegsráðherra á að í sumum tegundum í línuveiðunum hefur potturinn klárast oft og tíðum og hefur þurft að stoppa það í nokkrar vikur þannig að það er dálítil þversögn í þessu hjá hæstv. ráðherra. Nánast eingöngu í þorskinum hefur þetta ekki náðst.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann reikni með að margir bátar muni færa sig yfir í þetta núna eftir að ívilnunin verður hækkuð. Hvað reiknar hann með og áætlar að margir af þessum beitningarvélabátum sem eru núna að róa muni breyta yfir og fara á balalínu?

Síðan langar mig líka að velta því upp við hæstv. ráðherra að við síðustu úthlutun var 3.000 tonnum af skötusel úthlutað. Núna eru það 2.500 tonn sem þýðir að menn fá 16% skerðingu á kvóta sem þeir voru með í fyrra. Fyrst hæstv. ráðherra velur að fara þessa leið, hefði honum þá ekki fundist sanngjarnara að úthluta a.m.k. þessum 3.000 tonnum og fara síðan einhverjar aðrar leiðir í að útdeila þessum hugsanlega þúsund tonnum til viðbótar, hugsanlega miða við veiðireynslu þeirra báta sem hafa verið að veiða undanfarin þrjú ár eða eitthvað í þeim dúr en að fyrna eingöngu (Forseti hringir.) eina tegund í kerfinu í þessu tilfelli?