138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þá báta sem um er að ræða með línuívilnun hef ég litið svo á að þetta væru svokallaðir trektarbátar sem verið var að tala um, en nefndin getur þá farið yfir þau atriði ef eitthvað er óljóst um það. Þannig hefur þó verið um þetta rætt.

Varðandi síðan línuívilnunina sem hv. þingmaður minnist á að sé aukin er ég þar reyndar sammála hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni sem beitti sér sem ráðherra fyrir því að Alþingi samþykkti ákvæði um línuívilnun. Þá var tvenns konar aðgerð í því, virk byggðatenging á aflaheimildum og líka viss atvinnuaukning, skulum við segja, þ.e. mannaflaaukning. Við skulum gera ráð fyrir því. Það er mikil sátt um að út í þetta væri farið af hálfu þessa flota og byggðanna sem njóta þess þannig að ég tel öll rök fyrir því að styðja við línuívilnun og að þáttur hennar sé styrktur.

Varðandi orð hv. þingmanns um skötuselinn er þetta fiskur sem er alveg nýkominn í aflakvóta, það var fyrir líklega fjórum árum og það án þess að Hafrannsóknastofnun hefði lagt það til í sjálfu sér. Við vitum ekki um útbreiðslu og magn á þessum fiski til framtíðar og þó að í frumvarpinu séu heimildir ráðherra til að úthluta allt að 2.000 tonnum verður farið nánar ofan í það hvar þau mörk verða dregin. Þetta er að mínu mati (Forseti hringir.) ágætisbráðabirgðaaðgerð sem á sér lokapunkt í samþykkt laganna.