138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skiptar skoðanir eru um hvorum megin og hvar slægingarstuðullinn sem hv. þingmaður minntist á liggur hvað þetta varðar. Það fer líka eftir árstíðum og hvernig fiskurinn er o.s.frv. þannig að ýmis sjónarmið eru uppi varðandi slægingarstuðulinn en þó talið að eins og sakir standa sé a.m.k. ekki ástæða til að breyta honum.

Ég hef svo sem ekki miklu að bæta við orð mín síðan áðan. Ég er þeirrar skoðunar, hvort sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er sammála mér í því eða ekki, að línuívilnun eins og hún var lögð upp sé gott skref. Í sjálfu sér er ekki miklu magni af fiski ráðstafað þarna en það kemur tilteknum byggðum til góða, einmitt byggðum sem margar hverjar (Forseti hringir.) hafa orðið að láta undan síga í þeim markaðsbúskap sem átt hefur sér stað með fiskveiðiheimildir.