138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef menn lesa frumvarpið vel og greinargerðina með því kemur fram að skötuselurinn er ný fisktegund við land í þeirri útbreiðslu sem hún er en við vitum ekki enn hve sú útbreiðsla er mikil. Um er að ræða ákvæði sem verið er að leggja til ef menn hafa ekki séð það. Þar stendur að þetta sé ákvæði til bráðabirgða sem sett er til yfirstandandi fiskveiðiárs og þess næsta og þá þarf að koma endurnýjuð lagaheimild eða ný lög sem taka á framhaldinu. Því er augljóst hvað skötuselinn varðar að hér er um sérstæða aðgerð að ræða sem kveðið er á um og lýst er í lagafrumvarpinu. Menn geta síðan velt því fyrir sér hvort breytingar verða á fiskveiðistjórnarlögunum almennt sem koma þar inn í. En í bráðabirgðaákvæðinu er, eins og kveðið er á um í frumvarpinu, fyrst og fremst verið að taka til skötuselsins.

Hvað varðar heimildir til flutnings milli ára sem hv. þingmaður minntist á þá ítreka ég að það geta komið upp tilvik að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða af því tagi að heimila aukinn tilflutning. Því er kveðið á um það í frumvarpinu að það sé þá samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar og endurteknu mati í þeim efnum. En ég trúi því ekki að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson ætli að fara að verja að það eigi að vera möguleiki útgerðarinnar til 33% flutnings aflaheimilda milli ára, það sé hin algilda regla. Það er svo fjarri því. Við viljum fá fiskinn að landi (Forseti hringir.) og þessar miklu flutningsheimildir sem hafa verið finnst mér alls ekki passa við þær kröfur sem eru háværar núna í samfélaginu hvað það varðar.