138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær langvarandi deilur sem hafa verið í sjávarútvegi árum og nú áratugum saman og stöðugt virðist vera hægt að finna nýjan flöt að ræða um.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé tiltölulega mikil sátt um sjávarútveg, um flest atriði sjávarútvegsins, þ.e. flest meginatriði, sem í fáum orðum má lýsa svo að við viljum ganga þannig um auðlindir hafsins að við komum ekki að þeim í verra ástandi á morgun en við skildum við þær í dag, við viljum nýta fiskstofnana þannig að við sköðum þá ekki það mikið að við getum haft not af þeim á morgun. Sama á um allt lífríki hafsins. Vissulega hefur okkur miðað talsvert áfram hvað þetta varðar að mörgu leyti. Deilan um sjávarútveginn snýst fyrst og fremst um eignarhaldið, hvort þetta er séreign eða sameign, um ráðstöfunarrétt ákveðinna aðila, í þessu tilfelli útgerðar sem fær veiðiheimildir afhentar, hvort það þýði í leiðinni, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi áðan, að þarna sé nánast um séreign að ræða.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann að því til að það sé alveg ljóst og fari ekki á milli mála: Telur hv. þingmaður veiðiheimildir vera séreign þeirra sem hafa fengið þær úthlutaðar eða þeirra sem hafa keypt þær til sín af öðrum? Hvort lítur hann frekar á veiðiheimildir sem séreign þeirra eða sameign þjóðarinnar? Þetta er grundvallaratriði í umræðunni. Um þetta stendur hin mikla deila í sjávarútvegi.