138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:22]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er alveg augljóst af minni hálfu. Ég er þeirrar skoðunar að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, rétt eins og kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða, en nýtingarrétturinn sé séreign. Þessu hef ég haldið fram árum og jafnvel áratugum saman. Það er hálfskrýtið að segja þetta, manni finnst maður verða svo óskaplega gamall þegar maður segir slíkt, en það er þó þannig að þetta hefur verið afstaða mín alla tíð að um sé að ræða séreign á nýtingunni en það á sama tíma sé sameign þjóðarinnar, þ.e. ef slíkt hugtak er til. Ég held að menn hafi haft miklar efasemdir um það og fært fyrir því gild rök að um slíkt sé ekki að ræða, þ.e. sameign þjóðar, heldur miklu frekar eign ríkis og um leið forræði ríkis á fiskstofnunum. Það birtist síðan, eins og ég sagði í ræðu minni, í því að ríkisvaldið hefur til þess möguleika og vald að ákveða heildaraflamark, þ.e. hve mikið má veiða, með hvaða hætti og setja allar þær takmarkanir sem það telur nauðsynlegt til að vernda stofna o.s.frv.

Fyrirkomulag þar sem um er að ræða framseljanlegar aflaheimildir hefur gert það að verkum að íslenskur sjávarútvegur hefur skilað hagnaði frá því að þessu kerfi var komið á. Fram að þeim tíma gekk upp og niður svo ekki sé meira sagt í þeirri grein. Ég tel að um leið og við höfum náð þeirri festu sem því fylgir að vera með aflamarkskerfi í sjávarútvegi, höfum við líka um leið fengið mikla festu inn í sjálft hagkerfið vegna þess að þegar hinar miklu sveiflur voru í sjávarútveginum á árum áður, þýddi það líka um leið að það urðu miklar sveiflur í íslenska hagkerfinu. Það er því til mjög mikils að vinna, ekki bara fyrir íslenskan sjávarútveg heldur fyrir alla aðra atvinnustarfsemi á Íslandi, sérstaklega alla nýsköpun, að það sé miklu meiri stöðugleiki í íslensku efnahagslífi og sá stöðugleiki verður aldrei nema stöðugleiki sé í sjávarútvegi. Það verður ekki stöðugleiki í sjávarútvegi ef við t.d. hverfum aftur til fyrri tíðar þar sem var einhvers konar skrapdagakerfi, það verður heldur ekki stöðugleiki ef stjórnmálamennirnir ætla að fara að hafa puttana í því, m.a. eins og lagt er til í frumvarpinu sem rætt var áðan, í hvaða vinnslu á að vinna ákveðnar afurðir o.s.frv. Ef stjórnmálamenn ætla að auka afskipti sín af greininni mun það auðvitað valda (Forseti hringir.) enn meira tjóni.