138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:27]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal síðastur manna biðjast undan rökræðu um sjávarútvegsmál eða kvótakerfið. Ég hef reyndar lagt mig sérstaklega eftir slíkri umræðu árum saman, gaf út í félagi við annan mann sérstakan bækling um það mál, akkúrat þá spurningu sem hv. þm. Björn Valur Gíslason veltir hér upp, sem er þessi: Hvar liggur eignarrétturinn? Þannig að ég hef tjáð mig mjög ítarlega um það mál, ég gerði það áðan þar sem ég benti á að ég væri þeirrar skoðunar að fiskstofnarnir á Íslandsmiðum væru í eign ríkisins. Ég tel hugtakið „þjóðarréttur“ mjög loðið hugtak og að það sé miklu skynsamlegra að tala bara beint um hvað þetta er, að þetta sé eign ríkisins, ríkið hafi ráðstöfunarrétt hvað það varðar að ákveða heildarafla og annað slíkt, en síðan sé nýtingarrétturinn í séreign, hann gangi kaupum og sölum og það sé skynsamlegasta fyrirkomulagið sem við getum haft hvað varðar fiskveiðar á Íslandsmiðum.

Hvað varðar skuldir sjávarútvegsins, þá voru heildarskuldirnar 325 milljarðar við árslok 2007. Síðan hrynur gengi íslensku krónunnar og það er eðlilegt að skuldir sjávarútvegsins séu í erlendri mynt vegna þess að tekjur sjávarútvegsins eru í erlendri mynt. Þannig að þegar skuldirnar hafa vaxið svo mjög, hafa líka tekjurnar vaxið mjög. Menn verða auðvitað að hafa það í huga. Enn og aftur, heildarskuldir íslensks sjávarútvegs voru ekki nema rétt rúmlega 2% af heildarskuldum íslensks atvinnulífs, þannig að menn geta ekki haldið því fram að íslenskir útgerðarmenn hafi gjörsamlega misst vitið í skuldsetningu. Hitt er alveg rétt að það eru dæmi um að menn hafi verið að taka stöður í ýmsum öðrum rekstri, fjármálastofnunum og öðru, og það er bara eitt sem gildir um þetta. Ef menn hafa farið þannig með sín fyrirtæki að þeir hafa gengið of langt, tekið of mikla áhættu eða farið í rangar fjárfestingar, eiga menn auðvitað bara að standa frammi fyrir því. Það þýðir að annaðhvort verða bankarnir að leysa til sín aflaheimildir og selja þær aftur á markaði og þar með tapa þessir einstaklingar sínum fyrirtækjum og það þýðir bara það í framhaldinu að einhverjir aðrir kaupa og fara af stað. Það er hið eðlilega. Þannig gerist það, öðruvísi getur það ekki verið. Það er ekkert óeðlilegt við það, þannig gengur hinn eðlilegi og virki markaður fyrir sig. Það er mjög mikilvægt að einmitt bankarnir horfi til þessa að það sé ekki verið að koma í veg fyrir að það myndist rétt verð á aflaheimildunum (Forseti hringir.) með því að þeir sem fóru óvarlega hljóta auðvitað að tapa sínum heimildum.