138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti ræða hv. þingmanns að sumu leyti alveg með ólíkindum en í sjálfu sér er ekkert nýtt við þann tón sem kvað við í ræðu hennar. Ég ætla að leyfa hv. þm. Illuga Gunnarssyni að svara fyrir sig en einhvern veginn fannst mér þetta með óskiljanlegri og ósmekklegri orðum sem fallið hafa í þessum ræðustól og þó hefur ýmislegt komið héðan og ekki síst frá flokki hv. þingmanns. Það verður að segjast eins og er. (Gripið fram í.)

Þingmaðurinn á það gjarnan til eins og samherjar hennar að tala í nafni þjóðarinnar. Það er mjög slæmur ávani að standa í ræðustól Alþingis og þykjast vera að tala í nafni heillar þjóðar þegar maður hefur ekki það umboð, hv. þingmaður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að þjóðin þurfi núna á öllum þeim tekjum að halda sem hægt er að hafa út úr sjávarútvegi. Og í framhaldi af því: Telur hún enga óvissu hafa skapast í íslenskum sjávarútvegi vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um að fyrna aflaheimildir? Telur hún enga óvissu hafa skapast þannig að sjávarútvegurinn starfi sem aldrei fyrr og taki allar þær ákvarðanir um fjárfestingar og annað, að þar ríki engin óvissa?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann, af því að henni er tíðrætt um samráð, hvort haft verði samráð varðandi fyrninguna. Hvernig háttar því samráði? Hvernig sér hún fyrir sér að það samráð verði? Við hverja ætlar hún að hafa samráð? Af því að hv. þingmanni er tíðrætt um LÍÚ, og ekki ætla ég að fara að afsaka þau samtök á neinn hátt, hefur hún kynnt sér afstöðu Landssambands smábátaeigenda t.d.? Hefur hún kynnt sér afstöðu þeirra varðandi fyrningarleiðina? Hefur hún kynnt sér afstöðu Sjómannasambandsins, talsmanna sjómanna og talsmanna skipstjórnenda? Ég held að hún ætti að kynna sér hana áður en hún fer að tala (Forseti hringir.) hér með þessum hætti.