138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eflaust er einhvers staðar ótti varðandi skuldastöðu sjávarútvegsins en það er ekki meginorsökin fyrir því að aðilar í sjávarútvegi eru óttaslegnir, telja að sér vegið eða þora ekki að fjárfesta eða annað. Það er ekki ástæðan fyrir því að sú staða er uppi. Ástæðan fyrir því að óvissa er í sjávarútvegi er að við erum með ríkisstjórn sem boðað hefur að fyrna aflaheimildir sjávarútvegsins og það eru ekki bara þeir sem heyra undir LÍÚ sem þar eru undir, eins og hv. þingmaður virðist halda, það eru líka aðilar sem eru í hagsmunasamtökum smábáta. Ég held að hún ætti að fara aðeins betur yfir heimavinnuna þegar hún fer að ræða þessa hluti og kynna sér afstöðu þessara aðila líka því að ég fullyrði að þorri þeirra sem starfa í sjávarútvegi í dag er á móti þeirri aðferð sem hv. þingmaður talar fyrir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann fyrst ég er kominn aftur upp: Hvað gefur hún hæstv. sjávarútvegsráðherra, og þá væntanlega sjávarútvegsnefnd, langan tíma til að komast að þeirri niðurstöðu að hrinda fyrningu í framkvæmd? Hvað gefur hún sjálfri sér langan tíma? Ef fyrning verður ekki innan þess tíma, lítur hún þá svo á að slíta beri ríkisstjórnarsamstarfinu?