138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:45]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi tímasetninguna þá er hún alveg skýr í stjórnarsáttmálanum. Þar segir:

„Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010.“

Það stendur þarna svart á hvítu og við þetta ætlast ég til að verði staðið eins og aðrir fylgismenn og þingmenn stjórnarflokkanna hljóta að ætlast til. (GBS: En ef ekki?) Ef það næst ekki er það bara sú staða sem er uppi sem þarf að líta á þegar þar að kemur. Við skulum ekki vera með neina spádóma fram í tímann varðandi það.

Að halda því síðan fram eins og hv. þingmaður gerir að skuldirnar séu ekki áhyggjuefni í íslenskum sjávarútvegi eins og staðan er, það sé ekki skuldastaðan sem valdi ótta heldur áform um breytingar á þessu óréttláta kvótakerfi sem nú þegar hefur leitt hrun yfir margar sjávarbyggðir. (GBS: Hvað er óréttlátt?) Og þegar þingmaðurinn brýnir mig um að vinna heimavinnuna mína og kynna mér afstöðu aðila í greininni, þarf ég enga slíka brýningu. Ég hef þegar rætt við fjölmarga aðila í greininni sem bæði tengjast henni beint og óbeint og ég hef kynnt mér ítarlega sjónarmið manna í þessu sambandi. Þar fyrir utan hef ég auðvitað líka kynnt mér og kynnst sjónarmiðum almennra kjósenda á opnum fundum, í samtölum og í tölvupóstum sem mér hafa borist því að það er mikill áhugi fyrir þessu máli í samfélaginu. Þetta er eitt af brýnustu málunum í samfélaginu í dag og ég harma það ef hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur ekki skynjað þann undirþunga.