138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[21:47]
Horfa

Flm. (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðustu orð hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur valda mér nokkrum vonbrigðum, að hún hafi kynnt sér málið ítarlega. Ég verð að játa að ég stóð í þeirri von að það mætti skýra ýmislegt í málflutningi þingmannsins þannig að viðkomandi hv. þingmaður hefði ekki kynnt sér málið og þar með væri komin skýring á ýmsu því sem sagt var í þeirri ræðu sem flutt var hér áðan. En nú er komið í ljós að það var ekki byggt á vanþekkingu heldur einhverju öðru sem þar var sagt. Ég ætla ekki að elta ólar við það sem fram kom þar (ÓÞ: Er þetta málefnalegt?) vegna þess að sumt af því var hreinlega ekki svaravert. Þó vil ég benda hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur á að þegar maður skoðar samspil kvótastöðu og byggðaþróunar er það ekki jafneinhlítt og hv. þingmaður hefur látið liggja að. Í útgerðarplássinu Vestmannaeyjum þar sem kvótastaðan hefur verið að styrkjast jafnt og þétt fækkaði fólki á sama tíma og kvótinn jókst um ein 20%, þannig að það er margt fleira sem hefur áhrif á hvað stýrir byggðaþróun og íbúafjölda en bara kvótastaðan.

Hitt er alveg rétt að það komu upp mál eins og þingmaðurinn nefndi með svo smekklegum hætti, sem snúa að byggðarlaginu Flateyri. Til þess höfum við líka sett upp byggðakvóta, til að bregðast við slíkum uppákomum og þar hafa reyndar komið einstaklingar að rekstri sem hafa tryggt að undirstöður atvinnulífsins þar standa enn. Það sem ég vil spyrja hv. þingmann að er þetta: Þegar liggur fyrir að kalla á inn eignir sjávarútvegsins bótalaust, sem eru að stærstum hluta kvótinn og aflaheimildirnar, og það eru miklar skuldir í greininni, er hv. þingmaður þá þeirrar skoðunar að það muni styrkja greinina og auka möguleika hennar til að greiða skuldir sínar eða minnka að stærsti hluti eignanna verði kallaður bótalaust inn til ríkisins? Skuldirnar standa áfram. Telur hv. þingmaður að greinin muni eiga auðveldara (Forseti hringir.) eða erfiðara með að greiða skuldir sínar?