138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Enn og aftur tek ég undir þetta álit hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um ímynd greinarinnar og við eigum kannski að líta okkur nær hvað það varðar, þ.e. við sem höfum starfað í sjávarútvegi. Ekki síst hvers vegna ímyndin er svona slæm og hvað við sem vinnum eða höfum unnið í þessari grein getum gert í því. Þetta er ekki nýtilkomið og ímyndin hefur verið slæm, m.a. vegna deilna um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnarkerfið. Ungt fólk kannast helst við sjávarútveginn vegna þess að alltaf er verið að rífast um hann. Þetta hef ég oftsinnis heyrt, ég hef farið í heimsóknir í skóla, framhaldsskóla og grunnskóla, og þar nenna börn og unglingar oft ekki að tala um sjávarútveginn af því að þau segja að það sé svo leiðinlegt vegna þess að það er alltaf verið að rífast, alltaf verið að skammast. Þess vegna legg ég svona mikla áherslu á það að við klárum þessa umræðu. Núna höfum við tækifæri til þess að takast á um hana, taka rökræðuna, komast að niðurstöðu við sjávarútveginn og innan þessara veggja líka, til að geta sléttað þetta út. Það kemur engum betur en þeim sem starfa í sjávarútvegi að leysa málið með þeim hætti.

Það hefur verið talað um fyrningarleiðina. Um hvað erum við að tala með því? Við erum að tala um eignarréttinn. Við erum að tala um framsalsréttinn, leiguréttinn, því það er það sem stingur í augu. Þetta þekki ég bara af áralangri umræðu um sjávarútveg víðs vegar um landið. Þetta er það sem stingur í augun. Fyrningu, ef við notum það orð, má gera með ýmsum öðrum hætti en innkalla veiðiheimildir ef mönnum líst ekki á það. Það getur hreinlega falist í því að takmarka það hvernig þeir sem fá að hafa yfir veiðiheimildum að ráða, hvernig þeir mega ráðstafa þeim, hvernig þeir mega haga málum sínum, takmarka það hvernig við umgöngumst auðlindina. (Forseti hringir.) Að lokum ítreka ég það að ég vil að við klárum þessa umræðu, tökumst á um hana á jafnréttisgrundvelli og ýtum þessu út af borðinu.