138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Í tillögu hv. þm. Illuga Gunnarssonar og fleiri hv. þingmanna er lagt upp með að þeir vilja að Alþingi ákveði að fela hæstv. ríkisstjórn að breyta verkefnaskrá hæstv. ríkisstjórnar í einu tilteknu atriði eða eins og segir í tillögunni, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að lýsa yfir því að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.“

Nú mætti kannski skilja það sem svo að hv. þingmenn séu að öðru leyti ánægðir með þessa málefnaskrá, eða hvað? (Gripið fram í: Nei.) Maður hlýtur að velta því fyrir sér að þetta sé kannski það atriði sem þeir hafa fundið, en ég ætla nú ekki að svo sé.

Í greinargerð tillögunnar er að mínu viti mjög meinleg rökvilla, eins og raunar hefur verið komið inn á hér áður, þar sem því er haldið fram að áform um fyrningu aflaheimilda bindi hendur starfshópsins. Á hinn bóginn mætti alveg eins segja að einhliða yfirlýsing, eins og um getur í tillögu hv. þingmanna, bindi hendur nefndarinnar eða hópsins í hina áttina, þ.e. í kjölfar slíkrar yfirlýsingar gæti nefndin væntanlega ekki lagt til að fyrningarleiðin yrði farin ef rök þingmanna, eins og þau koma fram í greinargerðinni, eiga að halda.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi að við ættum að skoða allar hugmyndir. En er ekki tillagan sem hv. þingmaður flytur einmitt í andstöðu við þá skoðun? Þ.e. að ýta einni hugmynd út af borðinu vegna þess að hún bindi hendurnar frekar en einhver önnur hugmynd? Við erum með samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég held, frú forseti, að hún bindi á engan hátt hendur starfshópsins og tel að tillagan sé því óþörf.