138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð þá að spyrja hv. þingmann, og hann virðir mér það þá til vorkunnar að ég sjái rökvillurnar öðrum augum en hann: Má þá skilja það svo á hv. þingmanni að séu önnur atriði almennt séð í málefnasamningi hæstv. ríkisstjórnar sem ekki eru almenns eðlis, trufli þau alla umræðu eða alla vegferð löggjafarsamkundunnar, eða þeirrar nefndar sem hún kann að skipa, að þau eigi að taka út? Á sömu forsendum hlyti það að gilda um önnur sambærileg efni. Við höfum verið að fjalla um ansi mikilvæg og stór mál hér á þinginu sem snúa að velferð þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur stefnu í þeim öllum, þykist ég vita, og auðvitað getur það ekki verið svo að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar bindi með einhverjum ófrávíkjanlegum hætti þá umræðu sem verður innan nefndarinnar. Ég treysti þessari nefnd fullkomlega til þess að ráða ríkisstjórninni heilt, ráða Alþingi heilt, og koma fram með tillögur sem geta orðið þjóðinni allri til heilla.