138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu og ætla að gera grein fyrir því hvernig ég horfi á þessi mál. Að mínu mati hefur það ákvæði sem er í stjórnarsáttmálanum og hangir yfir þessari grein og vinnu endurskoðunarnefndarinnar ekki aðeins valdið óvissu í atvinnugreininni, heldur er það farið að trufla störf nefndarinnar sjálfrar. Þegar við skoðum verkefni starfshópsins, sem á að vera að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnarinnar, segir svo, með leyfi virðulegs forseta, í starfslýsingu hópsins:

„Verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni, sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta …“ o.s.frv.

Í raun er kjarni málsins þarna. Það er búið að gefa starfshópnum mjög opið umboð og þess vegna er mjög vel til fundið að trufla starf nefndarinnar þegar hér koma yfirlýsingar eins og til að mynda frá hv. varaformanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem talar um að þetta sé eins konar gefin stærð og gefin niðurstaða um að fara skuli fyrningarleiðina einfaldlega vegna þess að það liggi fyrir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í stefnuyfirlýsingu stjórnmálaflokkanna. Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnarflokkunum hefur gengið að efna loforðin sín, held ég að ekki mundi nú mikið muna um það þótt þessu loforði yrði kippt til baka, það munar nú ekki mikið um kepp í sláturtíðinni, eins og stundum er sagt. Bara af þeirri ástæðu væri útlátalítið fyrir ríkisstjórnarflokkana að hverfa frá þessu eða leggja þennan hlut til hliðar í því skyni að reyna að ná því sem er markmið nefndarinnar, að ná samkomulagi í þessu veigamikla máli.

Það er ekki hægt að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram. Ef niðurstaðan er gefin fyrir fram er verkefni starfshópsins óþarft. Starfslýsingin sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf okkur sem sitjum í nefndinni er þá ekkert í samræmi við það sem ætlast er til af nefndinni eins og hún var skipuð og eins og henni var skipað til verka.

Það sem við ræðum nú er mál sem oft hefur verið til umræðu hér í þinginu. Við skulum ekki gleyma því að á sínum tíma var samþykkt þingsályktunartillaga að frumkvæði þáverandi hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Það leiddi til þess að sett var á laggirnar ákaflega góð nefnd sem fór mjög rækilega yfir þær spurningar sem lutu annars vegar að auðlindagjaldinu og hins vegar að fyrningarleiðinni. Nefndin varð ekki samdóma í niðurstöðu sinni. Meiri hluti nefndarinnar komst að tiltekinni niðurstöðu og hafnaði í raun og veru því að fara þessa fyrningarleið. Þessi meiri hluti gerði það að mjög vel rökstuddu máli og sýndi fram á það í málflutningi sínum að fyrningarleiðin væri mjög illa til þess fallin að ná þeim markmiðum sem við vildum hafa í heiðri varðandi fiskveiðistjórnina. Þáttum eins og hagkvæmni, hagsmunum byggðanna, góðri nýtingu fiskstofnanna og því að skapa vissu um starfsumhverfi sjávarútvegsins væri öllu stefnt í tvísýnu ef farin væri leið fyrningarinnar.

Ég veit að um það eru ekki allir sammála og um það var tekist á þótt niðurstaðan hefði orðið sú sem hún varð á sínum tíma. Þess vegna leit ég þannig á þegar ég tók sæti í þessari nefnd, þá skipaður af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að fara yfir þessa hluti, að umboð okkar væri mjög opið. Ég get þess vegna ekki með neinum hætti tekið undir þá lýsingu eða túlkun hv. varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sem talaði hér áðan. Hann lét í veðri vaka að úr því að núverandi stjórnarflokkar hefðu umboð þjóðarinnar bæri að vinna að þessari niðurstöðu og engri annarri. Þá er búið að setja starf þessarar nefndar í uppnám. Þá hefur hún ekki lengur erindi í samræmi við það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði upp með. Þá er starf nefndarinnar til ónýtis. Það má kannski segja að það sé aukaatriði í málinu hvort þessi nefnd lifir eða deyr en þó væri illt til þess að hugsa ef tilraun manna til þess að reyna að ná saman í þessu vandasama máli væri að engu gerð ef niðurstaðan væri fundin fyrir fram.

Það er hægt að sýna fram á það með margvíslegum hætti að það hlytist mikill skaði af því að fara fyrningarleiðina. Það hefur oft verið bent á það í umræðunum, ekki bara í dag heldur oft áður, að um leið og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gefin um að fara fyrningarleiðina var skaðinn skeður. Við þekkjum fjölmörg dæmi um það, við heyrum það m.a. úr sjávarútveginum. Þar halda menn að sér höndum, þar hika menn við að fara í fjárfestingar, þar hika menn við að skipuleggja sig fram í tímann vegna þess að þeir vita ekki hvert rekstrarumhverfi þeirra verður. Nákvæmlega sama segja þeir sem eiga viðskipti við sjávarútveginn, fyrirtæki hér á Íslandi sem framleiða tæki fyrir sjávarútveginn, eins og 3X Technology, Marel og slík fyrirtæki, segja öll þessa sögu. Það er þýðingarlaust að tala við íslenska sjávarútveginn um þessar mundir einfaldlega vegna þess að menn vita ekki hver framtíðin verður. Það er alveg rétt, sjávarútvegurinn býr við margs konar aðrar ógnir og auðvitað er ein ógnin falin í þeim miklu skuldum sem við er að glíma.

En alveg eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson benti hér á áðan í máli sínu er ekki líklegt að leið sem felur það í sér að rýra fiskveiðirétt sjávarútvegsfyrirtækjanna sé líkleg til þess að stuðla að því að þessi sömu fyrirtæki geti staðið betur undir skuldbindingum sínum. Leið sem felur í sér óvissu af þessu taginu grefur undan framtíðarmöguleikum fyrirtækjanna, þau geta ekki skipulagt sig. Og gleymum því aldrei að sjávarútvegur umfram mjög margar atvinnugreinar er grein sem reiðir sig á að vita eitthvað hvað framtíðin ber í skauti sér. Það eru margir óvissuþættir í sjávarútveginum eðli málsins samkvæmt og þess vegna er það mjög alvarlegt ef bætt er pólitískri óvissu ofan á allt saman.

Hér er mikið búið að tala um Landssamband íslenskra útvegsmanna. Við skulum aðeins hvíla okkur á því og ræða aðeins um afstöðu annarra útgerðarmanna sem eru smábátaútgerðarmennirnir í landinu. Það er engin tilviljun að það eru einmitt þeir sem hafa mestar áhyggjur af því ef boðuð fyrningarleið verður farin vegna þess að í þeirra hópi eru flestir nýliðar. Í þeirra hópi eru þeir flestir sem nýlega eru komnir inn í greinina og eru þess vegna með miklar skuldbindingar á herðum sér. Þeir kvíða því auðvitað mjög ef tekjugrundvöllur þeirra verður rýrður. Ég ætla að taka dæmi og vitna aðeins til ræðu formanns Landssambands smábátaeigenda sem hann flutti á aðalfundi sambandsins fyrr á þessu hausti. Hann segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„En gera þeir“ — nú vísar hann til þeirra sem gagnrýna sjávarútveginn — „sem eru fullir […] gremju sér grein fyrir því að innan sjávarútvegsins eru fjölmörg lítil sjávarútvegsfyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, sem hafa aldrei gert annað en að nýta þær aflaheimildir sem þeim hefur verið úthlutað samkvæmt lögum og sum hver lagt allt að veði til að auka við sig á því sviði? Ég tek dæmi: Fyrirtæki í smábátaútgerð er með 100 tonna kvóta og skuldar 100 milljónir eftir gengishrun krónunnar. Hinn 1. september 2010, að óbreyttum aflaheimildum, mun fyrirtækið hafa 95 tonna kvóta en skulda um 105–110 milljónir. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er augljóslega vilji til að styrkja smábáta- og strandveiðar. Ekki hvarflar að mér að gera þar lítið úr og [ég er] handviss um að málinu fylgir góður hugur. En ég spyr: Hvernig mun framangreint smábátafyrirtæki eflast við það sem að framan er talið? Er líklegt að viðkomandi fyrirtæki hafi færst upp á „styrkleikalista“ viðskiptabankans? Og hitt, sem er ekki síður mikilvægt: Er líklegt að viðkomandi einstaklingi eða fjölskyldu hafi aukist þróttur og þol í útgerðinni eftir að hafa verið tilkynnt um 5 tonna fyrninguna? spyr sá sem vill fá svör og það skjótt og vel.“

Síðan segir hann:

„Með þessari lýsingu er ég ekki að lýsa stuðningi við núverandi fiskveiðkerfi eins og svo margir virðast halda. Ég er einfaldlega að benda á þá stöðu sem fjölmörg smábátafyrirtæki, lítil fjölskyldufyrirtæki, hringinn í kringum landið eru í. […] Það er fullkominn ruddaskapur að tala um innköllun veiðiheimilda/atvinnuréttar eins og ég hef ætíð litið á kvótann, án þess að taka skuldir fyrirtækjanna og einstaklinganna þar inn í. Finnst talsmönnum fyrningarleiðarinnar það sjálfsagt að sjávarútvegsfyrirtækin, stór sem smá, séu skilin eftir með skuldirnar, skuldir sem breyttust í hrein og klár skrímsli við gengishrun krónunnar?“

Ég held að þarna sé komið að kjarna málsins. Sá sem hér talar er formaður félags smábátaeigenda og gerir sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefur fyrir nýliðana, einmitt fyrir þá sem komu síðastir inn í greinina, einmitt fyrir þá sem hafa tekist á hendur skuldbindingar í góðri trú. Þeir hafa trúað á einhvern fyrirsjáanleika en hafa lent í því að það hefur orðið gengishrun sem hefur aukið skuldir þeirra. Þá segja menn: Er nú gráu bætandi ofan á svart? Er nú ástæða til þess að rýra tekjumöguleika þessarar greinar? Það er þetta sem málið snýst um. Þess vegna er það svo mikilvægt fyrir hagsmuni greinarinnar og möguleika hennar að við getum náð sáttum í þessu erfiða máli, að menn leggi þetta til hliðar, gefi sér ekki niðurstöðuna fyrir fram og gefi þeirri nefnd starfsfrið, sem nú starfar af góðum hug undir ágætri forustu Guðbjarts Hannessonar alþingismanns, til að reyna að ná (Forseti hringir.) niðurstöðu í þessu máli. En það fæst ekki meðan þetta damóklesar-sverð ríkisstjórnarinnar hangir yfir okkur. (Forseti hringir.)