138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda.

8. mál
[22:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu, sem ég er meðflutningsmaður að, sem felst í því að skora á ríkisstjórnina að lýsa því yfir að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda í sjávarútvegi. Mig langar að koma aðeins inn á það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði í ræðu sinni undir öðrum lið í dag að það er rosalega mikil óvissa í greininni. Ég tel alveg með ólíkindum að menn skuli þá fara að bæta við þá óvissu sem fyrir er, það er ekki skynsamlegt. Síðan langar mig að fara yfir stöðuna eins og hún nákvæmlega er í greininni í dag.

Frú forseti. Mjög margir einstaklingar sem eru í litlum útgerðum eru að gefast upp. Þeir eru að missa móðinn, þeir eru að guggna og bogna, m.a. vegna þess að svokölluð boðuð fyrningarleið, sem ég tel reyndar algjörlega ófæra, gerir það að verkum að menn sjá ekki framhaldið og sjá ekki til lands í því sem þeir eru að gera. Til að fara aðeins yfir það þá hafa menn rætt skuldir sjávarútvegsins mikið í kvöld og það er alveg rétt að skuldir sjávarútvegsins eru 550 milljarðar, en hvað hefur breytt því, frú forseti? Fyrir rúmu ári, áður en gengisfallið varð og bankahrunið kom, skuldaði þessi atvinnugrein upp undir helmingi minna en hún gerir í dag, bara eins og öll önnur fyrirtæki, heimilin í landinu sem voru með erlend lán o.s.frv. Til þess að bæta gráu ofan á svart hafa menn eða útgerðarfélög lent í því að búið er að skera aflaheimildir mjög mikið niður. Það gerir það að verkum að menn eru í bölvuðu basli við að reyna að ná endum saman og sjá fram úr því sem verið er að gera. Þar sem ég þekki til af eigin raun frá heimasvæði mínu og reyndar víðar eru menn að örmagnast undan því að hafa þessa fyrningarleið hangandi yfir sér. Það eru staðreyndir málsins. Ég vil líka benda á, frú forseti, að mörg lítil útgerðarfélög í heimaplássi mínu hafa verið í viðskiptum hjá bankastofnunum sem eru nú þegar búnar að hækka álagið á erlendu lánin frá því að vera undir 2% upp í tæp 8% ofan á jen og franka. Allir heilvita menn sjá að það er mikið meira en nóg að standa undir því og nánast ófært. Það er því algjörlega vonlaust að menn geti haldið áfram með þessum hætti.

Þá velti ég því líka upp hvort ekki væri skynsamlegra, eins og einn útgerðarmaður benti á þegar menn fóru að ræða þetta hvers vegna menn væru að fara að eyðileggja fyrirtækin, að menn mundu þá fyrna hlutabréfin í fyrirtækjunum. Það væri miklu skynsamlegra að fyrna hlutabréfin heldur en aflaheimildirnar og setja allt upp í loft. Það er hin kalda staðreynd málsins.

Ég vil benda á að í vandaðri skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gerði kemur berlega í ljós að ef menn færu þá leið að fyrna um 5% á ári eins og upp var lagt með, þá tekur það 5–6 ár fyrir stærstu og stöndugustu útgerðarfyrirtækin að fara í þrot, það tekur þann tíma að fara í þrot.

Ég vil einnig koma aðeins inn á það, af því menn festast alltaf við sjávarútvegsumræðuna út frá kvótanum og veiðiréttindunum, að mjög mikilvægt er að menn skipuleggi sig fram í tímann því að þetta er einn hluti af þeirri verðmætasköpun sem á sér stað í sambandi við sjávarútveginn. Það eru í fyrsta lagi veiðarnar, síðan vinnslan og loks markaðssetningin. Það er fullt af fyrirtækjum um allt land sem eru búin að ná samningum við erlenda kaupendur um að þeir tryggi það að þeir geti skaffað ákveðna vöru með ákveðnu fyrirkomulagi á grundvelli þeirra aflaheimilda sem þeir hafa yfir að ráða. Ef það yrði gert með þeim hætti að þeir mundu ekki vita hvort þeir hefðu svo og svo mikinn kvóta eða hvort þeir hefðu þúsund tonn eða fimm hundruð tonn eða hvað það væri, þá væri þetta allt komið upp í loft.

Frú forseti. Við erum alltaf ræða bara einn þátt sjávarútvegsins, þ.e. veiðiheimildirnar. Hins vegar mega menn ekki gleyma því og mjög mikilvægt er að menn átti sig líka á því að margir hverjir eru búnir að sérhæfa sig í vinnslu og markaðsstarfi og hafa lagt mikla vinnu og kostnað í það. Við megum ekki fórna því.

Síðan verðum við að átta okkur á því að mjög mörg hagsmunasamtök, hvort heldur sem eru sjómanna, útgerðarmanna eða sveitarfélaga, þvert á alla pólitík, það skiptir engu máli hvort sveitarstjórnarmennirnir eru í þessum flokknum eða hinum, hafa verulegar áhyggjur af boðaðri fyrningarleið og hafa komið þeim skilaboðum til hv. alþingismanna. Ég vona svo sannarlega að menn taki mark á því, af því að þetta er svipað og við upplifðum í sambandi við hrunið að ekki var hlustað á þá sem bentu á það sem gæti gerst. Þess vegna er mjög mikilvægt að við lærum af þeirri reynslu og virðum skoðanir hvers annars með því að taka fullt mark á því fólki. Þeir sem eru kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar eru eingöngu að hugsa um hag íbúanna og byggðarlagsins, þeir eru ekkert að hugsa um hag einhverra einstaklinga, þeir eru að hugsa um heildina. Það er því mjög mikilvægt að gera það með þessum hætti.

Það að boða þessa fyrningarleið dregur að sjálfsögðu allan þrótt úr greininni. Það hefur maður margoft séð vegna þess að menn eru hikandi, þeir fara ekki út í nýfjárfestingar. Ég er búinn að fara í tvígang að heimsækja fyrirtæki sem heitir 3X-Stál á Ísafirði. Það var alveg skýrt af þeirra hálfu að þegar menn horfðu fram á þessa boðuðu fyrningarleið og niðurstaðan varð sú í stjórnarsáttmálanum, þá hættu allir við sem voru með áform uppi um að fjárfesta í búnaði hjá því ágæta fyrirtæki, það kipptu allir að sér höndum og allir hættu við það sem var í pípunum hjá því fyrirtæki vegna þessarar óvissu. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn eyði henni.

Margir segja að þetta hafi verið einhver gjafakvóti, útgerðarmaðurinn hafi fengið þetta endurgjaldslaust í upphafi. Ég minni þá á, frú forseti, og ég kalla það ekki gjöf þegar aflamarkið var sett á á sínum tíma eftir að hafa verið í sóknarmarkskerfinu eftir hina svokölluðu svörtu skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem við höfum verið á þremur árum, þ.e. viðmiðunarárunum frá 1981–1983, verið að veiða 370 tonn af þorski á ári. Þá kom þessi skýrsla og sagði: Ef menn gera ekki einhverjar róttækar breytingar og fari að stýra þessu af einhverju viti mun þorskstofninn við Íslandsstrendur hrynja. Þess vegna fóru menn að gera þetta. Það sem gerðist í framhaldinu, frú forseti, var að þeir sem höfðu unnið og veitt og skapað sér rétt til þess að veiða fengu 60% út úr þeim viðmiðunum sem þeir höfðu. Það kalla menn í dag gjöf. Þannig var þetta í upphafi og virðast margir hverjir hafa gleymt því hvernig þetta var gert. Ef menn fengju 40% skerðingu á tekjumöguleikum í atvinnu sinni mundu þeir ekki líta á það sem gjöf. Menn mundu líta svo á að það væri skerðing.

Frú forseti. Eftir að aflamarkskerfið var sett á 1984 er búið með pólitískum aðgerðum að færa 40% af veiðiheimildunum handvirkt frá útgerðunum, þ.e. stjórnvöld hafa gripið inn í og fært 40% af aflaheimildunum með pólitískum aðgerðum ofan á þær skerðingar sem menn fengu. Það er nú ekkert smáræði sem búið er að fikta í kerfinu.

Mig langar að koma aðeins inn á eignar- og nýtingarrétt. Ég hef alltaf litið á það þannig, og það er mín persónulega skoðun, að þjóðin eigi fiskstofnana í sjónum. Það er sameign þjóðarinnar en nýtingarrétturinn er hjá útgerðarmönnunum og sjómönnunum. Það er alveg kristaltært í mínum huga. Um það þarf ekki að deila. Ég get fært mörg rök fyrir því. Þegar menn úthluta aflaheimildunum þá er það gert með þeim hætti að pólitíkin ákveður aflahámark í hverri tegund fyrir sig. Í framhaldi af því gera menn það þannig að þeir taka fullt af aflaheimildum áður en þeim er úthlutað í sértæka potta og þar fram eftir götunum, þannig að það er alveg klárt og klippt að eingöngu nýtingarrétturinn er hjá útvegsmönnum og sjómönnum, alls ekki eignarrétturinn. Um það mun ég ekki deila.

Ég get hins vegar, frú forseti, tekið undir með hv. þm. Birni Val Gíslasyni sem sagði áðan í andsvari að menn yrðu að ræða þessi mál. Við verðum að gera það á hófsaman hátt og við þurfum að komast að niðurstöðu. Það er kannski rétt sem hv. þingmaður sagði að það er mjög vont að hafa alltaf þessa óvissu á fjögurra ára fresti, þ.e. uppboð á aflaheimildum eða hvernig menn vilja hafa það. Það er mikilvægt að þeirri óvissu verði eytt. Það er eins og hv. þingmaður benti einnig á að ef menn mundu ræða t.d. hvernig ætti að standa að nýtingunni og hvernig menn sem hefðu þessar heimildir mundu ganga um þær með því t.d. að auka veiðiskyldu og þar fram eftir götunum, þá er ég meira en fús til að leggja sáttarhönd á (Forseti hringir.) hvernig það yrði gert því að ekkert er því til fyrirstöðu að menn auki veiðiskylduna.