138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd.

[13:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Rétt í þessu var dreift nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar varðandi Icesave-málið. Í nefndaráliti meiri hlutans fylgja með sem fylgiskjöl fjögur nefndarálit úr efnahags- og skattanefnd þar sem farið er mjög ítarlega yfir þessa þætti og eru mjög mikilvæg gögn í þessu máli. Því miður var ákveðið í fjárlaganefnd að fara ekki neitt efnislega yfir álit efnahags- og skattanefndar þrátt fyrir að þar sé að finna mjög gagnlegar ábendingar og upplýsingar sem nauðsynlegt hefði verið að fjalla um. Með öðrum orðum, það er alveg ljóst mál að með þessum hætti var eingöngu verið að setja á svið einhvers konar leikrit þar sem hlutverk efnahags- og skattanefndar var ekki neitt annað en að skrifa stíla en ætlunin frá upphafi var greinilega sú að hafa ekki nokkurn með.

Því vil ég spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, sem situr í efnahags- og skattanefnd og skrifar ásamt hv. þm. Lilju Mósesdóttur undir álit 2. minni hluta, hvaða skoðun hann hafi á þessum einkennilega málatilbúnaði af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar. Það er greinilegt að hér hefur verið sett upp einhvers konar skrautsýning eins og við sjáum stundum í skólaleikritum þar sem nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd höfðu eitt hlutverk og það var að vera statistar til að fylla upp í eyður á leiksviðinu. Það er augljóst mál að hlutverk efnahags- og skattanefndar var ekki annað og þetta er illa dulbúið leikrit til þess eins að reyna að dylja að þessu máli var einfaldlega ekki lokið í vinnslu fjárlaganefndar. Nefndin hirti ekkert um þær ábendingar sem komu fram, hvorki hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) né hjá öðrum í efnahags- og skattanefnd.