138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að skipta um gír í þessari umræðu og taka hana úr þessu pólitíska karpi. Mig langar að ræða hér störf þingsins út frá skipulagi verkefna þingsins og því sem kom fram hér fyrr í vikunni, m.a. hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og fleirum, mál sem rætt var á fundi forsætisnefndar í gær og á fundi formanna þingflokkanna. Ég hef rætt það áður og fengið hnjóðsyrði um að ég ætti kannski ekki að vera í svona mörgum nefndum eða að ég kvarti undan of miklu vinnuálagi.

Málið er ekki það. Málið er að mér finnst það dæmi um ekki nógu góð vinnubrögð að það skuli ekki vera hægt að skipuleggja störf þingsins nema með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Dagskrá morgundagsins er kannski til um kvöldmatarleytið daginn áður og það getur af sér gríðarlegt óhagræði. Og þegar ég nefndi þetta við fólk var eitt svarið, sem ég fékk í gær, að þetta hafi nú alltaf verið svona á þessum vinnustað. Mörg svörin hafa verið í anda hallærislegrar karlrembu þegar ég hef nefnt þetta, talað er um húsmæðranefndina, nefndina sem forseti þingsins kallaði saman til þess að kanna hvernig væri hægt að gera þingstörfin skaplegri fyrir heimilislíf fólks.

Ég vil beina því til hæstv. forseta og formanna þingflokkanna að taka drögin að dagskrá vikunnar og setja dagskrá hvers dags inn í hana í upphafi vikunnar. Það getur ekki verið svo erfitt en ef það er það væri kannski ágætt að óska einfaldlega eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð við þetta (Gripið fram í.) — já, frá útlöndum þess vegna. Það skiptir mjög miklu máli fyrir barnafólk, sérstaklega fyrir einstæða foreldra, að vita það með nokkurra daga fyrirvara að hvað fram undan er til þess að hægt sé að skipuleggja vinnuna fram í tímann. Það er í rauninni algjörlega sjálfsagt mál og það er alveg fáránlegt (Forseti hringir.) að menn skuli vera með stæla út af því hér í þingsal.