138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í síðustu viku spurði hv. þm. Guðmundur Steingrímsson að því hvort ekki væri hægt að leggja fram dagskrá þingsins með einhverjum ákveðnum fyrirvara. Hv. þm. Þór Saari tók undir það núna undir liðnum um störf þingsins. Ég mundi gjarnan vilja fá svör frá hæstv. forseta um hvort þetta sé í bígerð því að dagskrá þingsins fyrir þessa viku var sett inn á vefinn en hún er mjög óljós og tilgreinir raunar ekki hvaða mál liggja fyrir. Ég vil benda á að önnur þjóðþing, þar á meðal sænska og norska þingið, leggja fram dagskrár inn á vef sinn jafnvel margar vikur fram í tímann, að vísu með ákveðnum fyrirvara um breytingar. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og það er hluti af fundarstjórn forseta, að við þingmenn getum fengið tækifæri og ráðrúm til að undirbúa okkur í (Forseti hringir.) stórum og litlum málum þannig að við getum að lágmarki lesið í gegnum þau skjöl sem fylgja.