138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:06]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls að það sé nauðsynlegt að hafa þingsköp Alþingis í stöðugri endurskoðun og að hægt sé að setja niður dagskrá með þeim hætti að fólk geti skipulagt vinnutíma sinn jafnvel nokkra daga fram í tímann, það þykir ekki mikið. En það þýðir auðvitað að allir þingmenn verða að gera sér grein fyrir því að þá þarf að takmarka ræðutímann, þá þarf að ákveða hversu lengi umfjöllun um hvert mál á að standa og hverjir eru talsmenn o.s.frv. Það er gert í öðrum þjóðþingum. Ég tel það til fyrirmyndar og ég tel að við eigum að vinna þannig en það þýðir auðvitað ekki að taka þessa umræðu og lenda svo enn og aftur í ósamkomulagi á milli þingflokka um hvort takmarka megi ræðutíma fólks eða ekki, það hefur verið reynt nokkrum sinnum. Það er ekki hægt að skipuleggja tíma ef menn hafa ótakmarkaðan ræðutíma, það segir sig sjálft, og því er hægt að tala dögum saman. Ef við viljum betra skipulag verðum við líka að skilja hvað það þýðir.