138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Út af orðum hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur var tekin ákvörðun fyrir tveimur árum um að takmarka ræðutíma í þinginu verulega. Það liggja fyrir verulegar takmarkanir á ræðutíma þannig að sú staða er ekki uppi sem var áður að hægt væri að teygja ræðuhöld út í hið óendanlega. Það eru miklu skýrari reglur um þetta og hver þingmaður má ekki tala nema í takmarkaðan tíma samkvæmt þingsköpum.

Ég held þó að ekkert ætti að standa því í vegi að forseti gefi út áætlun um vikuna og auðvitað geta menn gert breytingar á áætlun. En núna upp úr hádegi á þriðjudegi held ég að það væri ekki til of mikils mælst að forseti gæfi upp áætlun sína um hvernig dagskráin á að vera ekki á morgun heldur hinn.