138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Það er brýnt að ræða þessi mál vegna þess að þau brenna greinilega á mörgum þingmönnum, skiljanlega. Ég vil vekja athygli á því að undanfarnar vikur höfum við ekki rætt neitt sérstaklega óvenjulega hluti. Það hafa ekki komið neinar sérstakar sprengjur inn í þingið sem hafa sett allt upp í loft þannig að það hefði átt að vera hægt undir þessum kringumstæðum að sýna eðlilega starfsemi þingsins í verki og hafa þá dagskrána skipulagða fyrir vikuna vegna þess mér sýnist þetta allt vera meira og minna mál sem hafa boðið upp á það. En afleiðingarnar af því að vita ekki hvað er á dagskrá t.d. daginn eftir eru þær að maður er ekki undirbúinn sem þingmaður. Ég tók t.d. ekki þátt í umræðum í síðustu viku um a.m.k. þrjú mál sem ég hefði undir venjulegum kringumstæðum viljað taka þátt í, einfaldlega vegna þess að ég vissi ekki daginn áður að þau væru á dagskrá og ég vil síður fara upp í pontu til að babla einhverja vitleysu.