138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

skipulag þingstarfa.

[14:11]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég sé að forseta þingsins er nokkur vandi á höndum. Annars vegar er beðið um að framlengja ræðutíma um störf þingsins og hins vegar var sú umræða sem ég hlustaði á í salnum um störf þingsins ekki nema að litlum hluta um störf þingsins. Að mestum hluta gekk þessi umræða út á smáskítlegt pólitískt karp á lægsta plani (Gripið fram í: Heyr, heyr.) um hina einstöku stjórnmálaflokka og frammistöðu þeirra, hvort þingmenn frá þeim væru straujaðir undir eina skoðun eða teldu sér það til ágætis að hafa hver sína skoðunina í flokknum. Það var rætt um að setja þyrfti rannsóknarnefnd í þingið til að rannsaka hvaða flokkar hefðu verið í ríkisstjórn þegar hrunið varð. Mér vitanlega er rannsóknarnefnd að störfum (Forseti hringir.) að rannsaka aðdraganda hrunsins og vonandi kemst sú nefnd að niðurstöðu. En ég fyrir mitt leyti bið hv. kollega mína á þinginu að halda sig frá þessu smáskítlega þrasi og taka þar til í sínum hópi.