138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar búum svo vel að við erum með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða og þrátt fyrir að við höfum, a.m.k. endrum og sinnum, tilhneigingu til þess að gera lítið úr þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í er þetta nokkuð sem liggur fyrir og hefur verið mælt hvað eftir annað af þeim stofnunum sem bera saman þjónustu á milli landa. Hafa í rauninni allir fundið fyrir því sem hafa þurft á þjónustu íslenska heilbrigðiskerfisins að halda og hafa samanburð við önnur lönd að þar er mikill mannauður og aðstaða sem nýtist okkur mjög vel.

Í þessu felast mikil sóknarfæri. Það er hins vegar ekki nýtt að við höfum notað þau, í gegnum tíðina höfum við oft og tíðum nýtt þessa þjónustu fyrir borgara annarra landa, en aldrei held ég að við höfum haft eins góða aðstöðu til að nýta þetta í sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga og einmitt nú. Við höfum alltaf þurft og átt að nýta þau sóknarfæri sem eru til staðar en núna erum við í þeirri stöðu út af efnahagsástandinu að við gætum misst margt af okkar besta fólki. Íslenskir heilbrigðisstarfsmenn eru mjög eftirsóttir og geta fengið störf hvar sem er í heiminum en þó sérstaklega í þeim löndum sem við berum okkur saman við, Norðurlöndunum.

Ímynd þjóðarinnar er þrátt fyrir allt mjög góð, sérstaklega á þessu sviði. Við erum með mannauðinn, aðstöðuna og ímyndina og þess vegna eigum við mikla möguleika á þessu sviði.

Hingað til lands koma 60 sjúklingar á mánuði í augnaðgerðir og um 10 sjúklingar á mánuði í lýtaaðgerðir. Þetta fer ekki hátt. Flestir þeirra eru frá Færeyjum, Grænlandi og Noregi. Það hefur verið mjög lítil markaðssetning hvað þessa hluti varðar, þetta hefur fyrst og fremst komið til af afspurn. Þær útflutningstekjur sem við höfum nú þegar af þessari þjónustu eru nokkur hundruð milljónir á ári og gætu mjög auðveldlega oltið á milljörðum ef rétt yrði á málum haldið. Þessar tekjur dreifast jafnt á heilbrigðisstarfsmenn sem heilbrigðisstofnanir og síðan aðila sem tengjast heilbrigðisþjónustu ekki neitt af því að í tengslum við þetta koma oft aðstandendur sem þurfa bæði að hafa ofan af fyrir sér og borða meðan á dvöl stendur.

Virðulegi forseti. Ég velti þessu hér upp og vek athygli á því vegna þess að það er mjög mikilvægt að við nýtum þessi tækifæri núna. Þegar ég var heilbrigðisráðherra — og þá vorum við þó ekki í þeirri stöðu sem við erum í núna — gerði ég hvað ég gat til að ýta undir þetta til þess að við gætum nýtt þessi tækifæri. Meðal annars átti Ísland að vera í forustu fyrir Norðurlöndin á sviði heilbrigðismála á árinu 2009 og eitt af því sem ég lagði sérstaka áherslu á þar var sameiginlegt heilbrigðisþjónustusvæði á Norðurlöndunum. Norðurlöndin hafa farið þá leið að gera eitt svæði í hverju landi fyrir sig og það var nokkuð róttækt því að þau lönd, sérstaklega þau stærstu, skiptast upp í mörg heilbrigðisumdæmi. Þau hafa hins vegar farið þá leið að vera með eitt sameiginlegt svæði. Það er mjög margt sem mælir með því að Norðurlöndin vinni þétt saman á þessum sviðum, bæði hvað varðar það að fólk geti farið á milli landa og milli svæða og líka til þess að ná niður kostnaði á t.d. lyfjum og öðru slíku.

Í þessari stuttu umræðu get ég ekki farið yfir þetta allt saman en spyr hins vegar hæstv. ráðherra hvort ráðherra, og fyrirrennari hennar, hafi fylgt eftir tillögum Íslands um eitt heilbrigðisþjónustusvæði á Norðurlöndunum. Ef svo er, hvernig hefur það gengið? Hefur verið rætt við Færeyinga um frekara samstarf á sviði heilbrigðismála eins og innflutning sjúklinga frá Færeyjum með samstarfi á sviði lyfjamála? Það mál var komið mjög langt þegar ég fór úr heilbrigðisráðuneytinu. Þá voru m.a. forustumenn í færeyskum heilbrigðismálum í heimsókn, í janúar, og ég var reyndar á leiðinni til Færeyja þegar ríkisstjórnin fór frá völdum.

Að síðustu: Mun ráðherra reyna að bregða fæti fyrir innflutning sjúklinga til Íslands frá öðrum löndum eða reyna að koma í veg fyrir samstarf á vísindasviði á milli landa? Þrátt fyrir að ekki sé hægt að stoppa það, ráðherra þarf að breyta lögum til þess að svo megi verða, skiptir máli hvaða skoðanir ráðherra hefur á þessum málum af mörgum augljósum ástæðum (Forseti hringir.) og þess vegna væri fróðlegt að fá að vita afstöðu ráðherra til þessa máls.