138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það eru mjög mörg tækifæri núna til sóknar í heilbrigðisþjónustunni þó að við göngum í gegnum mikla hagræðingu. Það eru t.d. tækifæri til skipulagsbreytinga. Sú er hér stendur stóð fyrir utandagskrárumræðu um daginn um heilbrigðismál þar sem var mjög ánægjulegt að heyra hvað þingmenn voru tilbúnir til að gera breytingar á þjónustunni varðandi það að koma hugsanlega á hér svokölluðu valfrjálsu stýrikerfi að danskri fyrirmynd. Það er mjög spennandi að nýta núna tímann til þess að ræða skipulagsbreytingar.

Hér hefur aðallega verið rætt um hvaða erlendu sjúklinga við getum fengið til að meðhöndla og nýta þá það fjármagn sem þannig kemur inn til að efla hér áfram heilbrigðisþjónustuna. Það var minnst á bæði augnlækningar og lýtalækningar og að talsvert magn sjúklinga væri að koma hingað til okkar í þessu sambandi. Ég minni líka á að krabbameinssjúklingar frá Færeyjum hafa verið hér í meðferð og Björn Zoëga, sem er núna starfandi forstjóri á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi, hefur einmitt sagt að greiðslan sem kemur frá Færeyjum vegna þessa kemur í veg fyrir að fækka þurfi fólki eins mikið og ella í þeirri kreppu sem við göngum núna í gegnum. Hann telur að ef við náum fleiri sjúklingum svona inn frá Færeyjum megi gera enn betur.

Það sama á við um Grænlendinga. Grænlensk yfirvöld eru núna að skoða það að senda fleiri sjúklinga hingað og ég veit að FSA á Akureyri hefur líka skoðað samstarf við Grænland. Landspítalinn er tilbúinn í það líka samkvæmt upplýsingum Björns þannig að það er mjög spennandi að sjá hvað við getum gert meira fyrir vini okkar í nágrenninu.

Varðandi norrænt samstarf er það ekkert nýtt af nálinni, það er búið að vera norrænt samstarf mjög lengi í heilbrigðismálunum og ég minni á (Forseti hringir.) að núna t.d. er samstarf í gangi um það að meðhöndla sjúklinga með mjög sjaldgæfa sjúkdóma sameiginlega á Norðurlöndunum.