138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því hversu jákvætt hæstv. heilbrigðisráðherra tók í læknatengda ferðaþjónustu eða heilsutengda ferðaþjónustu þó að nefndarskipan muni ekki breyta öllu hvað það varðar. Fullt af fólki er að vinna í þessum geira nú og væri nær að leita til þess og spyrja hvernig verkefnin ganga. En við Íslendingar munum hafa alla burði til þess landfræðilega, þjónustulega og ímyndarlega á sviði heilbrigðismála að kalla til fólk erlendis sem vill njóta þeirrar þjónustu sem íslenskt heilbrigðisstarfsfólk hefur upp á að bjóða. Við erum þannig í sveit sett að við getum sagt svo, landfræðilega, að Norðurlandabúar og Evrópubúar aðrir sem og Ameríka geta sótt hingað til að njóta þeirrar þjónustu sem við getum veitt.

Við erum framarlega á sviði heilbrigðismála, við erum framsækin, rannsóknir sýna að við stöndum vel að vígi. Við eigum að efla þau tækifæri sem við blasa nú þegar niðurskurður blasir við í okkar eigin hagkerfi, að reyna að efla þá fólkið okkar, efla mannauðinn með því að flytja til okkar fólk sem vill og þarf á þeirri þjónustu að halda sem við getum boðið upp á. Það er hægt að gera með vali þeirra sem hingað vilja sækja sem og að koma á tengslum og samningum við önnur lönd. Við munum jafnframt sjá að þessu fólki sem sækir hingað lækningaþjónustu fylgja aðstandendur. Þetta er gjaldeyrisaflandi fyrir íslenska þjóð. Þetta veitir vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki okkar tækifæri til að stunda vinnu sína og nýta nám sitt á Íslandi okkur til góða og þeim sem hingað vilja sækja þá þjónustu.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) að fylgja eftir lækningatengdri og heilsutengdri þjónustu til hins ýtrasta, (Forseti hringir.) landsmönnum og öðrum til heilla.