138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Eins og aðrir ræðumenn þakka ég kærlega fyrir þessa umræðu, hún er virkilega þörf. Ég held að við séum öll sammála um mikil sóknarfæri í heilbrigðisþjónustunni. Við erum ekki að tala um atvinnugrein sem getur orðið framúrskarandi, heldur erum við að tala um atvinnugrein sem er framúrskarandi. Við sjáum það á því að við erum með mesta langlífi á Íslandi, við erum að tala um að við erum með hæsta hlutfall meðal OECD-ríkjanna varðandi fimm ára lifun hjá þeim sem greinast með brjóstakrabbamein, dánartíðni nýbura er mjög lág, við erum með mjög hátt hlutfall lækna per íbúa. Allar tölur sýna okkur að við erum framúrskarandi í þessu. Erlend ráðgjafanefnd um hvar við ættum að leggja áhersluna í háskólanámi kom einmitt fram með það að við ættum að leggja áherslu á heilbrigðisvísindi sem ættu síðan að endurspeglast í nýsköpun og í atvinnulífinu.

Skoðun mín er sú að við eigum ekki að standa hérna og tala um að verja velferðarkerfið eða heilbrigðiskerfið. Við eigum að tala um að standa vörð um fólkið okkar. Það er fólkið sem byggir upp heilbrigðisþjónustuna, það er fólkið okkar sem notar heilbrigðisþjónustuna þannig að við þurfum að spyrja og svara því hvernig við getum veitt fólkinu okkar besta þjónustu og hvort hægt sé að samþætta það og styrkja núverandi þjónustu með því að bjóða erlendum heilsuferðamönnum heilbrigðisþjónustu eins og áður hefur verið nefnt. Þetta held ég að sé virkilega sóknarfæri.

Þegar hefur verið bent á dæmi eins og það að Grænlendingar vilja í auknum mæli nýta sér heilbrigðisþjónustuna hérna. Færeyingar hafa leitað eftir því. Það er búið að stofna Heilsufélag Reykjaness sem ætlar að skapa 300 störf á Reykjanesi á næstu þremur árum Við erum að heyra um einkafyrirtæki sem vill opna spítala í Mosfellsbænum. Pör hafa þegar leitað hingað í tæknifrjóvgun. Það er ýmislegt sem hægt er að gera og það skiptir náttúrlega miklu máli að við sem þingmenn spyrjum okkur hvernig við getum aðlagað lagaumhverfið til að opna fyrir þessa möguleika. Hvernig getum við samþætt þetta (Forseti hringir.) þeirri þjónustu sem við bjóðum nú þegar okkar fólki upp á? Með þessu getum við tryggt að við höldum okkar færa starfsfólki í landi, við getum greitt þeim (Forseti hringir.) betri laun og vonandi dregið úr niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu.