138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

sóknarfæri í heilbrigðisþjónustu.

[14:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna ræðu hæstv. ráðherra tek ég fram að það er samt ekki til eftirbreytni að hæstv. ráðherra svari ekki spurningunum. Nú veit ég ekki hver svörin eru. Ef ég miða við þá ræðu sem ég heyrði hjá hæstv. ráðherra er ég afskaplega ánægður með viðbrögðin. Mér finnst kveða við góðan tón og ég styð ráðherra í því að vinna með þessum hætti. Ég er svo sannarlega afskaplega sáttur við þau viðbrögð sem hér komu frá hv. þingmönnum. Þau voru öll á einn veg, að menn ættu að nýta þessi tækifæri.

Enn fremur eru allir hv. þingmenn sammála um, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði, að þetta mætti aldrei verða til þess að við lækkuðum þjónustustigið hjá okkur. Til þess er leikurinn ekki gerður. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór einmitt yfir það að tekjurnar sem Landspítalinn fær nýtast til að halda fólki að störfum á Landspítalanum.

Virðulegi forseti. Við erum með lagaumhverfi sem býður upp á þetta, það var samþykkt með atkvæðum allra þingmanna, ekki í minni tíð heldur í tíð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem ráðherra. Þess vegna hefði ég áhuga á því að fá að vita hvað menn voru að gera með þetta norræna samstarf. Þar var lagt upp með, og ég var búinn að tala við alla ráðherra á Norðurlöndunum, um að vera með eitt þjónustusvæði og þeir tóku allir vel í það, sáu allir haginn í því sem hefur hjálpað okkur mikið. Því er heldur ekki að leyna að síðasti hæstv. ráðherra tók mjög illa í þessar hugmyndir. Núna liggur fyrir að suður á Reykjanesi er að fara í gang mjög mikil starfsemi sem mun, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, skaffa 300 sérfræðingum störf. Það er einu ári á eftir vegna þess að ekki var opnað á að nýta skurðstofur þar sem eru mjög lítið notaðar. Ef það hefði hins vegar verið gert hefði verið hægt að taka á móti sjúklingum í ágúst á þessu ári en ekki ágúst 2010. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Svo því sé til haga haldið finnst mér mjög óþægilegt að geta ekki komið með viðbrögð við svörum við spurningum mínum. Ég vona að ég þurfi ekki að fara í (Forseti hringir.) neinar æfingar til að koma því að í framhaldinu.