138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[14:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leiðrétta hér mismæli sem mér urðu á áðan, ég sagði til janúar 2010 en meinti að sjálfsögðu til ársloka 2010.

Ég get ekki séð annað en að þetta sé hinn mesti misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra þar sem kjararáð er sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Hér er löggjafinn enn á ný að grípa inn í með þessum hætti, setja lög á sjálfstæða stjórnsýslunefnd sem ekki á að lúta þeirri lagasetningu og vera óháð löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Þetta skiptir miklu máli og ég hef sérstaklega áhyggjur af dómurum í þessu frumvarpi vegna þess sem gerst hefur hér á landi. Það er nú þegar búið að gera hagræðingarkröfu á Hæstarétt upp á einar 100 millj. kr., þ.e. um að lækka laun og annan kostnað hjá Hæstarétti. Ég vil minna á að dómstólar skulu algjörlega vera óháðir og sjálfstæðir hér á landi, þetta snýr að þrígreiningu ríkisvaldsins og að þeir skuli ekki vera neinum háðir. Svo getur Alþingi gripið inn í störf dómstóla með þessum hætti og gert hér einhliða lagabreytingu til þess að lækka laun dómara, enda eru fordæmi fyrir því að dómari hafi ætlað að láta reyna á þennan rétt sinn fyrir dómstólum og var það þá byggt á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra eins og það væri sjálfsagt að inni í frumvarpinu væri það ákvæði að forsetinn væri undanþeginn þessu. Ég átti nú sennu hér við hæstv. forsætisráðherra í sumar um að það mætti ekki lækka laun forseta á kjörtímabili hans á meðan hann sæti í því starfi. Það var lagt fram frumvarp hér í sumar sem sneri að öðru, að því að lækka laun hans, sem betur fer sá framkvæmdarvaldið að sér og lagði það ekki fram. En mér finnst þetta undarlegt og ég ítreka það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, þetta er ekki neitt sparnaðarfrumvarp, þetta er frumvarp sem (Forseti hringir.) búið er að ræða um, það er búið að lækka þessi laun og það er ekki fyrirsjáanlegt að kjararáð brjóti þá reglu sem það vinnur eftir og hækki (Forseti hringir.) laun á meðan launaþróun er hér í mínustölu.