138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að taka undir orð samflokksmanns míns, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Mér finnst þetta frumvarp óneitanlega lykta af lýðskrumi. Hér er verið að leggja fram lagabreytingu sem er í rauninni algjörlega ónauðsynleg og það er athyglisvert að sjá þær tillögur sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Ef við tökum fjárlagafrumvarpið til hliðar hefur hann talað fyrir skattalækkun til nýsköpunarfyrirtækja — við sjáum þó ekkert af þessum margumtöluðu skattahækkunarfrumvörpum — og síðan kemur þetta frumvarp hér um að ekki megi hækka laun æðstu embættismanna og þingmanna út árið 2010. En það er ekki eins og ég sé hér í andsvari um lagafrumvarpið varðandi þessa viðmiðunarhópa og varðandi þá viðmiðunarhópa sem kjararáði er gert að miða sig við samkvæmt lögum. Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á virðist þetta vera algjörlega ónauðsynlegt frumvarp því að ekki er gert ráð fyrir að það verði miklar launahækkanir á næsta ári, frekar hinu. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann sé með einhverjar upplýsingar um hvernig gert er ráð fyrir að launaþróun verði hjá þessum viðmiðunarhópum, hvort það kemur einhvers staðar fram að gert sé ráð fyrir einhverjum launahækkunum, að hæstv. ráðherra útskýri þá rökin fyrir þessu að öðru leyti en að þetta sé bara, eins og ég sagði, algjört lýðskrum og ómarktækt.