138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

kjararáð.

195. mál
[15:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé það nú að hæstv. fjármálaráðherra hefur haft alveg rétt fyrir sér um lækkunina. Það er t.d. eitt sem var gagnrýnt hér í störfum þingsins áðan, það er engin dagskrá sem liggur fyrir þinginu, ég sá þetta frumvarp fyrst í morgun og hér starfar maður í nefndum og öðru. Það er svo mikill flýtir á öllum að hér er málum hent inn í þingið, sem þýðir að þingmenn koma hingað meira og minna ólesnir. En hér sé ég að þetta er líka til lækkunar, þetta bindur bara til hækkunar. Þá er það komið hreint milli mín og hæstv. fjármálaráðherra. Það breytir því ekki að þarna er verið að binda hendur þessa ráðs þótt það sé algerlega óþarft.

Þótt hæstv. fjármálaráðherra segi að tími hárra launa sé liðinn verður hann að eiga það við sig því að stefna ríkisstjórnarinnar gengur út á að setja hér á ofurskatta á laun, í einkageiranum sérstaklega og líka hjá hinu opinbera, þannig að það verður mikill landflótti. Þegar Íslendingar flúðu til Kanada um þarsíðustu aldamót var það ekki bara fólkið sem hafði það verst sem fór, og líklega var það minnsti hlutinn, það var fólkið sem hafði þor, dug og fjármagn til þess að flytja, sá tækifærin, hafði kjark og flúði þau stjórnvöld sem voru í landinu, sem voru ofurskattpíningarstjórnvöld. Hæstv. fjármálaráðherra keyrir nú með íslensku þjóðina inn í þetta umhverfi núna með þessari skattpíningarhækkun. Það er alveg hreint með ólíkindum að þetta frumvarp skuli vera komið hér fram og að hæstv. fjármálaráðherra skuli vera hræddur um að kjararáð fari hér að hækka laun í andstöðu við hlutverk sitt.